Spænski framherjinn Esaú Martines Rojo hefur gert samning við knattspyrnudeild Þróttar og mun hann leika með karlaliði félagsins í Lengjudeildinni í sumar. Þetta kemur fram í frétt á heimasíðu Þróttar.

Esau er 31 árs gamall hávaxinn og öflugur framherji sem lék síðast með AD Torrejón CF í spænsku 3.deildinni en von er á honum til landsins á næstu dögum.

Þróttarar gera ráð fyrir því að Esau verði tilbúinn í fyrsta leik í Lengjudeildinni sem er gegn Leikni föstudaginn 19. júní. Þróttur mætir Álafossi í Mjólkurbikarnum á laugardaginn kemur.

Spænski framherjinn er annar leikmaðurinn sem gengur til liðs við Þrótt á jafn mörgum dögum en bandaríski framherjinn Dion Acoff sem lék í Laugardalnum sumrin 2015 og 2016 mun leika í Þróttarabúningnum næstu mánuðina.