Mikil pressa er á Mikel Arteta, knattspyrnustjóra Arsenal, þessa stundina en eftir 2-1 tap liðsins gegn Wolves í 10. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu karla í gær situr liðið í 14. sæti deildarinnar með 13 stig. Þetta var þriðji tapleikur Arsenal í röð á heimavelli í deildinni en byrjun liðsins er sú versta síðan árið 1981.

Arteta sagði í samtali við fjölmiðla eftir leikinn að hann hefði verulegar áhyggjur af gengi liðsins. Eitt af áhyggjuefnunum er líklega hversu illa gengur að koma Pierre-Emerick Aubameyang, fyrirliða liðsins, inn í sóknarleikinn en hann snerti boltann 23 sinnum í leiknum einu sinni sjaldnar en markvörðurinn Bernd Leno.

Aubameyang hefur ekki skorað í opnum leik síðan í leiknum gegn Fulham í fyrstu umferð deildarinnar en hann hefur skorað tvö deildarmörk á leiktíðinni.

Skytturnar hafa eingöngu skorað 10 deildarmörk á yfirstandandi leiktíð en einungis fjögur neðstu lið deildarinnar hafa skorað minna en Arsenal á tímabilinu. Arsenal hefur haft betur í einum af síðustu sex leikjum sínum í deildinni.

Um helgina varð ár síðan Arteta tók við stjórnartaumunum hjá liðinu af Unai Emery en þá sat liðið í áttunda sæti deildarinnar. Arteta kvaðst eftir leikinn gera sér fulla grein fyrir því að fari úrslitin ekki að verða liði hans hagstæð gæti hann misst starfið. Einbeiting hans væri hins vegar á því að bæta leik liðsins og fá leikmenn til þess að spila betur en ekki á eigin framtíð.

Eftir að hafa verið áskrifandi að sæti í Meistaradeild Evrópu í stjórnartíð Arsene Wenger í tæpa tvo áratugi frá tímabilinu 1997 til 1998 hefur liðinu mistekist að tryggja sér sæti i keppninni síðustu þrjár leiktíðir.