Portúgalska knatt­spyrnu­goð­sögnin Cristiano Ron­aldo er ekki skyldugur til þess, sam­kvæmt samningi kappans við sádi-arabíska knatt­spyrnu­fé­lagið Al-Nassr, að mæta á kapp­akstur For­múlu 1 í Sádi-Arabíu um næst­komandi helgi.

Ronaldo gekk til liðs við Al-Nassr í upphafi árs í kjölfar þess að samningi hans við enska úrvalsdeildarfélagið Manchester United var rift. Hjá Al-Nassr er sagt að Ronaldo fái því sem nemur 170 milljónum punda á ársgrundvelli, tæpa 30 milljarða íslenskra króna.

Sögusagnir hafa verið uppi um að ákvæði hafi verið í samningi Ronaldo sem kveði á um að hann sé skyldugur til þess að mæta á Sádi-Arabíska kappaksturinn í Formúlu 1 um komandi helgi.

Burt séð frá því hvort Ronaldo sé áhugamaður um Formúlu 1 eður ei greinir Mirror frá því að sögusagnir um umrætt ákveði í samningi portúgölsku knattspyrnustjörnunnar séu ekki á rökum reistar.

Stjórnvöld í Sádi-Arabíu hafa það orð á sér að stunda íþróttahvítþvott, meðal annars í gegnum Formúlu 1, fótbolta og golf, til þess að beina athyglinni frá slæmu orðspori ríkisins í mannréttindamálum.