Myndskeið sem birtist á samfélagsmiðlum í gær, eftir leik Stjörnunnar og Aftureldingar í Olísdeild karla í handbolta, hefur vakið töluverða athygli en þar sést starfsmaður Stjörnunnar á leiknum rjúka í Gunnar Malmquist, leikmann Aftureldingar í fagnaðarlátum liðsins sem vann 26-29 sigur á Garðbæingum.
Starfsmaður Stjörnunnar, var fyrrum landsliðsmaðurinn í handbolta, Sigurður Bjarnason. Gunnar og Sigurður hittust í Garðabæ í dag og slíðruðu sverðin.
,,Ég ber aðeins í LED skilti í eigu Stjörnunnar sem er fyrir aftan mig og sparka örlítið í það og þá fæ ég, að ég tel, fyrrverandi landsliðsmann Sigurð Bjarnason á mig og hann tekur ágætlega á kallinum," sagði Gunnar við Fréttablaðið í dag.
„Ekkert vesen," skrifar Stjarnan við færslu á samfélagsmiðlum þar sem Sigurður og Gunnar takas tí hendur.
„Við sættumst bara eftir þetta, ég tók í spaðann á honum og baðst innilegrar afsökunar á þessu. Það eru tilfinningar í þessu og svona getur gerst, það er bara þannig. Maður reynir að hafa eins gaman að þessu og maður getur," sagði Gunnar um málið í dag.
Jahérna hér, voðalega eru menn litlir þarna í garðabænum, allt eðlilegt við það að starfsmaður hrindi leikmanni hjá andstæðingnum. pic.twitter.com/s2GML8Mw8p
— Gunnar Pétur Haraldsson (@gunniiip) December 4, 2022