Aðstaða danska knattspyrnufélagsins Lyngby, þar sem að íslenski þjálfarinn Frey Alexandersson er við stjórnvölin, mun taka miklum breytingum til hins betra á næstu árum. Félagið hefur fengið grænt ljós á að fara í heilmiklar endurbætur á leikvangi sínum til þess að uppfylla þá staðla sem settir eru á leikvanga í dönsku úrvalsdeildinni, sem Lyngby er nú í harðri baráttu um að komast upp í.

Áætlanir Lyngby miða að því að loka leikvanginum með fjórum yfirbygðum stúkum sem munu í heildina geta hýst í kringum 6.500 áhorfendur. Þá verður svæðið í kringum leikvanginn skipulagt með það að markmiði að gera umhverfið eins fjölskylduvænt og hægt er. Við norðurhluta vallarins á einnig að koma fyrir 188 stúdíóíbúðum og við suðurhlutann eiga að koma 42 íbúðir fyrir eldri borgara.

Einnig á 1.500 fermetra heilsukjarni að rísa á svæðinu og þá verður félagsaðstaða Lyngby tekin í gegn. ,,Nú hefur verið komist að niðurstöðu sem hefur þarfir almennings, fyrirtækja, félagsins og stuðningsmanna í forgrunni," sagði Andreas Byder, framkvæmdarstjóri Lyngby í viðtali á heimsíðu félagsins.

,,Þetta verður leikvangur fyrir alla borgina, lifandi staður með samblöndu af menningu, íþróttum, og fótbolta á hæsta gæðastigi. Við hlökkum til þess að geta tekið á móti öllum," bætti Andreas við.

Búist er við því að framkvæmdir hefjist á næsta ári. Lyngby er í harðri baráttu um að komast upp í dönsku úrvalsdeildina. Liðið er sem stendur í 3. sæti í næst efstu deild Danmerkur þremur stigum frá efsta sæti deildarinnar.