Ís­lenska karla­lands­liðið í hóp­fim­leikum nældi sér í silfur á Evrópu­meistara­mótinu í kvöld. Ís­land hefur ekki sent karla­lið á EM í næstum ára­tug en strákarnir sem mættu til leiks í Portúgal eru svo sannar­lega í öðrum gæða­flokki en lið Ís­lands á árum áður.

Drengirnir mættu dýr­vit­lausir inn á mótið og kláruðu öflugt trampólín með smá­vægi­legum mis­tökum.

Stemmingin í íslenska karlalandsliðinu er engu lík.
Ljósmynd/Stefán Þór Friðriksson

Strákarnir fóru næst inn á gólfið og byrjaði það vel þangað til að Júlían Máni K. Rakelar­son meiddist þegar hann var að ljúka við aftur á bak heljar­stökk með beinum líkama á gólfinu og þurfti að hætta keppni.

Strákarnir hafa verið að glíma við meiðsli en það hefur ekki haft á­hrif á stemminguna í liðinu og kemur maður alltaf í manns stað.

Strákarnir kláruðu gólfæfingar sínar þrátt fyrir meiðsli Júlíans.
Ljósmynd/Stefán Þór Friðriksson
Júlían gefur áhorfendum merki um að það sé í lagi með hann en hann mun líklega vera frá í einhvern tíma.
Ljósmynd/Stefán Þór Friðriksson

Það þurfti því að kalla inn vara­mann á dýnuna en Adam Bæ­hrenz Björg­vins­son steig upp og hjálpaði liðinu og sækja silfrið.

Adam steig upp og skilaði öflugu trampólíni og dýnu fyrir liðið í kvöld.
Ljósmynd/Stefán Þór Friðriksson

Strákarnir enduðu mótið á dýnu og var ljóst fyrir síðasta á­haldið að þeir þurftu 19,500 stig á síðasta á­haldinu til að eiga mögu­leika á verð­launa­palli.

Sögulegt stökk Helga skilaði silfrinu heim

Helgi Lax­dal Aðal­geirs­son, einn af lykil­mönnum ís­lenska karla­liðsins, gerði sér lítið fyrir og endaði mótið með stæl er hann keyrði í tvö­falt fram­heljar stökk með beinum líkama og tveimur og hálfri skrúfu en enginn hefur fram­kvæmt slíkt stökk á EM áður.

„Ég er ekkert smá á­nægður,“ sagði Helgi eftir mót. „Eftir allt þetta. Eftir gríðar­lega erfitt gólf þar sem við misstum mann út þá mættum við bara og kláruðum dýnuna og rústuðum þessum,“ sagði Helgi.

Spurður um stökkið sem braut blað í fim­leika­sögunni var Helgi einstaklega hreinskilinn og sagðist hafa verið „skít­stressaður“ fyrir því.

Helgi Laxdal hefur verið í miklu upphaldi hjá áhorfendum á mótinu.
Ljósmynd/Stefán Þór Friðriksson

„Fyrsta stökkið sem ég gerði er heil skrúfa kraft­stökk tvö­falt með einni og hálfri skrúfu og það gekk eigin­lega ekki nógu vel. Þannig ég var bara úff nú er ég að fara gera miklu erfiðari stökk og vera fyrstur í heiminum að gera það. Ég var viður­kenna ég var að skíta á mig,“ sagði Helgi léttur eftir verð­launa­af­hendinguna.

Það ætlaði allt um koll að keyra innan liðsins eftir að hann lenti stökkið eins og má sjá í mynd­bandi hér að neðan.

„En ég gerði og lenti það full­kom­lega og skrifað í sögu­bækurnar,“ sagði Helgi en hann vonast til að árangur liðsins muni valda því að hægt verði að byggja upp stráka­fim­leika á Ís­landi enn frekar.

Drengirnir þurftu hins vegar að bíða eftir því að fá ein­kunn og var mikil spenna í loftinu. Þeir fengu að lokum 19,900 sem dugði þeim í annað sætið og fögnuðu þeir vel og inni­lega þegar úr­slitin voru ljós.