Íslenska karlalandsliðið í hópfimleikum nældi sér í silfur á Evrópumeistaramótinu í kvöld. Ísland hefur ekki sent karlalið á EM í næstum áratug en strákarnir sem mættu til leiks í Portúgal eru svo sannarlega í öðrum gæðaflokki en lið Íslands á árum áður.
Drengirnir mættu dýrvitlausir inn á mótið og kláruðu öflugt trampólín með smávægilegum mistökum.

Strákarnir fóru næst inn á gólfið og byrjaði það vel þangað til að Júlían Máni K. Rakelarson meiddist þegar hann var að ljúka við aftur á bak heljarstökk með beinum líkama á gólfinu og þurfti að hætta keppni.
Strákarnir hafa verið að glíma við meiðsli en það hefur ekki haft áhrif á stemminguna í liðinu og kemur maður alltaf í manns stað.


Það þurfti því að kalla inn varamann á dýnuna en Adam Bæhrenz Björgvinsson steig upp og hjálpaði liðinu og sækja silfrið.

Strákarnir enduðu mótið á dýnu og var ljóst fyrir síðasta áhaldið að þeir þurftu 19,500 stig á síðasta áhaldinu til að eiga möguleika á verðlaunapalli.
Sögulegt stökk Helga skilaði silfrinu heim
Helgi Laxdal Aðalgeirsson, einn af lykilmönnum íslenska karlaliðsins, gerði sér lítið fyrir og endaði mótið með stæl er hann keyrði í tvöfalt framheljar stökk með beinum líkama og tveimur og hálfri skrúfu en enginn hefur framkvæmt slíkt stökk á EM áður.
„Ég er ekkert smá ánægður,“ sagði Helgi eftir mót. „Eftir allt þetta. Eftir gríðarlega erfitt gólf þar sem við misstum mann út þá mættum við bara og kláruðum dýnuna og rústuðum þessum,“ sagði Helgi.
Spurður um stökkið sem braut blað í fimleikasögunni var Helgi einstaklega hreinskilinn og sagðist hafa verið „skítstressaður“ fyrir því.

„Fyrsta stökkið sem ég gerði er heil skrúfa kraftstökk tvöfalt með einni og hálfri skrúfu og það gekk eiginlega ekki nógu vel. Þannig ég var bara úff nú er ég að fara gera miklu erfiðari stökk og vera fyrstur í heiminum að gera það. Ég var viðurkenna ég var að skíta á mig,“ sagði Helgi léttur eftir verðlaunaafhendinguna.
Það ætlaði allt um koll að keyra innan liðsins eftir að hann lenti stökkið eins og má sjá í myndbandi hér að neðan.
„En ég gerði og lenti það fullkomlega og skrifað í sögubækurnar,“ sagði Helgi en hann vonast til að árangur liðsins muni valda því að hægt verði að byggja upp strákafimleika á Íslandi enn frekar.
Drengirnir þurftu hins vegar að bíða eftir því að fá einkunn og var mikil spenna í loftinu. Þeir fengu að lokum 19,900 sem dugði þeim í annað sætið og fögnuðu þeir vel og innilega þegar úrslitin voru ljós.