Helgi Fannar Sigurðsson
Miðvikudagur 18. janúar 2023
10.20 GMT

Sara Björk Gunnarsdóttir var á mála hjá Lyon frá 2020-2022 og vann Meistaradeild Evrópu tvisvar með félaginu. Nú er hún hjá Juventus á Ítalíu og hefur opnað sig um framgöngu Lyon á meðan hún var ólétt.

Sara segir frá því að upphaflega hafi viðbrögð félagsins við óléttunni verið fín. Það var hins vegar eftir að hún var kominn heim til Íslands þar sem hún gat ekki æft lengur sem viðhorf Lyon gagnvart óléttunni skinu í gegn.

Fljótlega eftir að Sara kom heim til Íslands tók hún eftir því að Lyon sleppti því að borga henni laun í eitt skiptið. „Ég hélt kannski að þetta væru einhver mistök en ég talaði samt við aðra leikmenn til að vera viss. Þær höfðu fengið launin sín á réttum tíma,“ skrifar Sara.

„Svo fékk ég ekki næsta launatékka heldur svo ég hringdi í Dietnar (umboðsmann Söru). Hann ræddi við Vincent (stjórnarformann Lyon) en það komu engin svör. Umboðsmaðurinn ræddi aftur við Lyon og við sendum formleg bréf.“

Sara Björk í úrslitaleik Meistardeildarinnar 2020. Hún skoraði í leiknum, sem Lyon vann
fréttablaðið/epa

Fóru með málið alla leið

Loks fékk Sara svar frá Vincent. „Hann baðst afsökunar á þessum tveimur mánuðum sem vantaði og að ég fengi þá greidda. Fyrir þriðja mánuðinn sagði hann hins vegar að þau væru að fara eftir frönskum lögum, sem þýddi að félagið skuldaði mér ekkert meira.

Ég sagði honum að þetta væri ekki rétt og að þau ættu að fara eftir reglum FIFA. Þær reglur voru nýjar en ég þekkti þær aðeins eftir samtal við leikmenn einu sinni. Það átti sér stað áður en ég varð ólétt,“ skrifar Sara og segir sér hafa verið bent á að FIFAPRO leikmannasamtökin væru að vinna að fæðingarorlofsrétti og réttindum í kringum meðgöngu fyrir knattspyrnukonur.

Sara segir að Dietmar hafi haldið áfram að pressa á félagið að borga launin. Engin svör fengust. Leikmannasamtök Frakklands skárust í málið og síðar FIFAPRO. „Vikur urðu að mánuðum og enn var enginn fullur launatékki.“

Loks sagði Dietmar við Vincent að FIFAPRO ætlaði með málið alla leið á FIFA-stiginu. Vincent svaraði því: „Ef Sara fer með þetta til FIFA á hún enga framtíð hjá Lyon.“

„Ég var svo hissa og svo sár. Ég náði ekki utan um þetta. Þessi staða gerði mig brjálaða. Hvernig gat nokkurt félag komist upp með svona lagað?“

Þarna var Sara enn stödd á Íslandi og framtíðin í mikilli óvissu. „Þetta átti að vera hamingjusamasta stund lífs míns en þess í stað var ég ringluð, stressuð og fannst ég svikin. Þau héldu kannski að ég ætlaði í frí til Íslands en ég var að leggja svo hart að mér.“

Breytt viðhorf gagnvart henni

Sara reyndi að njóta stundarinnar og óléttunnar, en allt vesenið hjá Lyon flæktist alltaf fyrir henni. „Eitt kvöldið sagði ég við Árna (Kærasta hennar og barnsfaðir): Kannski á ég bara að hætta.“

„Þegar ég sagði félagi mínu fyrst frá óléttunni virtust þau ánægð fyrir mína hönd og sögðust ætla að gera allt til að aðstoða mig. Ég trúði því en þarna var ég ekki svo viss. Frá fyrsta apríl, þegar ég kom til Íslands, og þar til í ágúst heyrði ég ekki frá neinum á skrifstofu félagsins eða úr þjálfarateyminu. Ég var enn í nánu sambandi við einhverja liðsfélaga, sem og lækna og sjúkraþjálfara, bara persónulega samt. Þetta voru vinir mínir. Félagið talaði samt aldrei formlega við mig, spurði hvernig gengi að æfa eða hvernig óléttan gengi.“

Sara ætlaði sér að koma aftur eftir að sonur hennar og Árna fæddist, koma sér strax í gang og spila leiki. Enda hafði hún æft vel. Það gekk hins vegar ekki að óskum.

„Það var öðruvísi að æfa þegar ég kom aftur. Það var komið fram við mig á annan hátt. Ég bað um að fá að taka barnið með í útileiki en því var hafnað. Þau héldu að hann gæti truflað aðra leikmenn í fluginu eða rútuferðinni með því að gráta allan tímann. Ég sætti mig ekki við það, hann var enn á brjósti. Hann var svo lítill og stólaði á mig.

Ég sagði þeim að ef þetta yrði svona gæti ég ekki verið með í útileikjum. Þau sögðu mér að Ragnar gæti komið með mér í tvær æfingaferðir til að prófa það. Mér leið ekki vel með að hann yrði prófaður. Ég ætlaði hvorki að setja mig né hann í þá stöðu. Það var enginn skilningur á milli mín og félagsins. Þau létu alltaf eins og það hafi verið neikvætt að ég hafi átt barn.“

Forsetinn hundsaði hana

Þarna var FIFAPRO að vinna hörðum höndum fyrir máli Söru gegn Lyon er varðaði launin. „Ég gat ekki annað en hugsað að það hlyti að hafa áhrif á samband mitt við félagið. Vincent sagðist ekki skilja af hverju ég væri að þessu en að þetta væri minn réttur, eins og það var þeirra réttur að verja sig í málinu.“

Þegar Sara hitti forseta Lyon, Jean-Michel Aulas, í fyrsta sinn eftir að hún sneri aftur segir hún að viðhorf hans hafi ekki verið gott. „Hann heilsaði mér ekki einu sinni. Hann horfði ekki á eða virtist ekki taka eftir Ragnari (syni Söru.) Vincent var nýbúinn að segja mér að þetta væri ekkert persónulegt en eftir þetta með forsetann var ljóst að það var það.“

Jean-Michel Aulas
Fréttablaðið/EPA

Sara var orðin hundleið á stöðunni. „Ég var orðin svo þreytt á þessu ósætti. Það var mér ljóst að sem móðir átti ég enga framtíð hjá félaginu.“

Að lokum vann Sara svo málið, fékk laun og allt sem hún átti inni hjá Lyon. Hún vonar að mál hennar hjálpi leikmönnum sem lenda í sömu stöðu í framtíðinni. „Þess vegna er ég að skrifa þetta. Þessi sigur var mun stærri en ég. Þetta var trygging á því að í framtíðinni verði leikmenn sem eignast barn fjárhagslega öryggir. Það er ekkert „kannski“ eða „grátt svæði.“

„Ragnar er næstum eins árs og við erum á frábærum stað sem fjölskylda. Ég er hjá Juventus og er svo glöð. Ég vil samt vera viss um að enginn leikmaður þurfi að ganga í gegnum það sem ég gekk í gegnum og að Lyon viti að þetta var ekki í lagi.“

Lyon brást við

Lyon brást fljótt við grein Söru. Félagið segist alltaf hafa stutt hana og bendir á að það hafi hleypt henni í frí til Íslands eftir að húm hætti að æfa. Lyon ber fyrir sig frönsk lög og segir þau ástæðu þess að málið fór eins og það fór.

Einnig virðist franska stórveldið þvertaka fyrir það viðhorf sem Sara lýsir eftir að hún sneri aftur til félagsins eftir barnsburð. Félagið segist stolt af því að hafa haft Söru innanborðs og að hún hafi getað snúið aftur á völlinn eftir barnsburð. Lyon bendir á að félagið hafi leyft syni Söru og barnfóstru að ferðast með í útileik.

Lyon fagnar nýrri reglugerð FIFA sem styður barnshafandi konur. Sara fékk ekki nýjan samning hjá Lyon þegar sá fyrri rann út í sumar en segir félagið það aðeins vera af íþróttalegum ástæðum.

Sara Björk, Árni og sonurinn Ragnar

Árni gaf lítið fyrir svörin

Árni, kærasti Söru og faðir Ragnars, hafði litla þolinmæði fyrir viðbrögðum Lyon.

„Góður stuðningur já? Þið rædduð ekki við hana í sjö mánuði á meðan hún var ólétt. Þið borguðuð ekki laun hennar á meðan. Þið báðuð fólkið hennar um að ljúga til að styðja ykkar mál og hótuðuð því að hún ætti enga framtíð hjá félaginu. Þið bönnuðuð henni að taka son okkar með í útileiki á meðan hún var enn með hann á brjósti. Ég gæti haldið áfram,“ skrifar Árni beittur á Twitter.

Athugasemdir