Alþjóðaólympíunefndin, IOC, og framkvæmdastjórn Ólympíuleikanna 2020 í Tókýó gáfu út sameiginlega yfirlýsingu í gær um að leikunum og Ólympíumóti fatlaðra verði frestað um eitt ár hið minnsta. Leikarnir verða þó áfram kenndir við árið 2020.

Það þurfti svo sem ekkert að koma á óvart að leikunum skyldi vera frestað en Shinzo Abe, forsætisráðherra Japans, hafði lengi barist gegn því að leikunum yrði frestað. Það væri einfaldlega of dýrt að slá í frestunarklárinn.

Í lok árs 2019 var áætlaður kostnaður vegna Ólympíuleikanna sagður 12,6 milljarðar dala. Reikningurinn vegna leikanna hefur farið stöðugt hækkandi en Tókýó fékk leikana árið 2013. Skömmu síðar kom í ljós að reikningurinn yrði mun hærri en áætlanir gerðu ráð fyrir.

Árið 2015 var ljóst að reikningurinn yrði trúlega sexfalt hærri en í fyrstu var talið. Japanska ólympíunefndin virðist hafa vanmetið flest allan kostnað eins og launa- og byggingakostnað meðal annars. Kostnaðurinn skiptist milli borgarinnar, Ólympíunefndarinnar og ríkisstjórnarinnar.

Í frétt AFP segir þó að upphæðirnar séu ekki endilega réttar og segir að kostnaðurinn sé jafnvel tífaldur miðað við það sem upphaflega var lagt upp með. Þá hafa japönsk fyrirtæki dælt peningum í leikana gegnum styrktarsamninga sem eru metnir á um 3,3 milljarða dollara, samkvæmt AFP.

Þá eiga eftir að koma inn í stórir styrktarsamningar við Toyota, Bridgestone og Panasonic sem gerðir voru við IOC, alþjóðlegu Ólympíunefndina. Sérfræðingar sem AFP ræddi við bentu á að Japanar hafa þegar eytt þessum aurum, það væri ekki á áætlun eða slíkt heldur væru þeir þegar í notkun.

Í yfirlýsingunni segir að hin fordæmalausa og óútreiknanlega útbreiðsla COVID-19 veirunnar hafi gjörbreytt aðstæðum um heim allan. Vegna þróunar mála og upplýsinga frá Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni (WHO) hafi forseti IOC og forsætisráðherra Japans komist að sameiginlegri niðurstöðu um að frestun leikanna væri óumflýjanleg fyrir hagsmuni alþjóðasamfélagsins, íþróttafólksins og allra þeirra sem koma að Ólympíuleikunum.

Samkvæmt IOC höfðu um sex þúsund íþróttamenn tryggt sig inn á Ólympíuleikana, eða rétt tæplega helmingur, þar af einn Íslendingur, Anton Sveinn McKee.

Aðrir íslenskir keppendur voru að berjast við að komast inn en áttu ágæta möguleika ef heimurinn hefði ekki stökkbreyst. Flestir voru í einstaklingsgreinum og höfðu bæði Sveinbjörn Jun Iura og Kári Jónsson sagt að þeir væru að leggja allt í sölurnar til að komast inn. Hvort þeir hafi fjárhagslega burði til að reyna aftur á næsta ári verður að koma í ljós.

„Ég hef verið heppinn með styrkt-araðila en hef þurft að sækja þá sjálfur. En það er ekki nóg til að lifa af því. Ég vinn á Stuðlum sem fer vel með júdóinu,“ sagði Sveinbjörn við Vísi í byrjun árs. Kári sagði við RÚV á sama tíma: „Þetta er náttúrulega svolítið hark hvað peninga varðar. En fyrst og fremst er maður í þessu af ástríðu og þetta gefur manni svo mikið á margan annan hátt. En ég fæ ekki föst laun mánaðarlega.“

Forsætisráðherra Japans, Shinzo Abe, ræðir við fréttamenn eftir að ákvörðun var tekin í gær. FRéttablaðið/Getty