Góðgerðarmót í Ástralíu sem helstu tennisstjörnur heims tóku þátt í skilaði tæplega fimm milljónum dollara sem fara í að berjast gegn skógareldunum þar í landi.

Stærstu stjörnur tennisheimsins, Serena Williams, Roger Federer, Rafa Nadal og Novak Djokovic tóku öll þátt í mótinu í Melbourne.

Um 2500 heimili hafa orðið eldinum að bráð í Ástralíu og eru 28 látnir en stærstu stjörnur tennisheimsins eru mættar til Ástralíu til að taka þátt í Opna ástralska meistaramótinu sem hefst eftir helgi.

Á dögunum settu skógareldarnir strik í reikninginn í úrtökumóti fyrir Opna ástralska meistaramótið þegar Dalila Jakupovic neyddist til að hætta keppni vegna öndunarerfiðleika.

Maria Sharapova sem var um tíma í efsta sæti heimslistans kvennamegin, þurfti einnig að hætta leik á æfingarmóti og kvartaði undan loftgæðunum.