Það er tilfinning margra sem fylgjast mikið með knattspyrnu að slíkum tilfellum sé að fjölga, undanfarna mánuði hafa mörg tilfelli komið upp þar sem að knattspyrnumenn hafa hnigið til jarðar vegna hjartavandamála.

Í júní fór Christian Eriksen í hjartastopp í leik með danska landsliðinu í leik gegn Finnlandi á Evrópumótinu sem fram fór í Englandi. Skyndihjálp var beitt á vellinum og hann var síðan fluttur á Ríkisspítalann.

Þann 11. september síðastliðinn hneig Wessam Abou Ali, 22 ára gamall leikmaður danska liðsins Vendyssel, niður til jarðar í leik gegn Lyngby í næst efstu deild Danmerkur. Hann komst til meðvitundar í sjúkrabíl á leið á spítala.

Þann 30. október, þurfti Sergio Aguero, leikmaður Barcelona, að hætta leik sökum þess að hann átti erfitt með öndun sem var síðan tengt við hjartavandamál. Hann féll til jarðar og hlaut meðhöndlun á vellinum.

Fyrir tveimur dögum síðan hneig Emil Pálsson, leikmaður norska liðsins Sogndal, niður til jarðar og fór í hjartastopp. Endurlífgunartilraunir báru árangur og hann er nú vakandi og í stöðugu ástandi.

Jacob segir það hins vegar enga tilviljun að svona tilfelli eigi sér stað í heimi íþrótta. Það eru til margar rannsóknir sem sýna fram á tengsl íþróttaiðkunar og óreglulegs hjartslátts, brjóstverkja, svima, hjartastopps og í mjög sjaldgæfum tilfellum skyndidauða.

Hann segir hins vegar að þessar rannsóknir ættu ekki að fæla neinn frá því að stunda íþróttaiðkun. ,,Fólk á aldrinum 12-35 ára sem stundar ekki íþróttaiðkun eða aðra reglubundna hreyfingu er í þrefalt meiri áhættu á því að upplifa skyndidauða sökum hjartastopp og það væntanlega vegna þess að það situr bara í sófanum heima. Svo íþróttaiðkun eða reglubundin hreyfing er meiri forvörn heldur en aukin áhætta," sagði Jabob Tfelt, prófessor og yfirlæknir hjartadeildar Ríkisspítalans í Kaupmannahöfn í samtali við DR.

Davíð Otto Arnar, hjartasérfræðingur, var gestur í Bítinu á Bylgjunni í morgun. Þar fjallaði hann um tengsl íþróttamanna og hjartavandamála og hvaða rauð flögg þurfi að varast sem geti orsakað hjartavandamál.