Sigurður Ragnar Eyjólfs­son, þjálfari karla­liðs Kefla­víkur, er að vonum sáttur með tíma­bilið í Bestu deildinni það sem af er. Margir sér­fræðingar spáðu Kefla­vík falli fyrir mót, liðið er hins vegar um miðja deild.

„Okkur var spáð falli af flestum en ég vissi að þegar liðið væri komið saman og við búnir að fá smá tíma með því þá yrðum við með gott lið, betra en í fyrra,“ segir Sigurður Ragnar, en á síðustu leik­tíð varð liðið í tíunda sæti, stigi frá fall­sæti.

Kefla­vík átti erfitt upp­dráttar í upp­hafi leik­tíðar og var án stiga eftir fyrstu fjóra leiki deildarinnar. Sigurður segir að liðið hafi ekki alveg verið til­búið á þeim tíma­punkti. „Joey Gibbs kom stuttu fyrir mót og Adam Páls­son ein­hverjum dögum fyrir mót, svo voru mikil meiðsli í byrjun tíma­bils, svo við náðum ekki að púsla þessu öllu saman strax, en svo höfum við orðið betri og betri.“

Kefl­víkingar eru nú í sjöunda sæti deildarinnar, að­eins þremur stigum á eftir KR, sem er sæti ofar. Mark­miðið héðan af er að vera í efri hlutanum þegar deildinni verður skipt upp að 22 um­ferðum loknum. „Það er hörku­góð á­skorun og mark­mið sem er krefjandi, en ég tel að við getum það. Kannski þurfum við smá heppni með okkur,“ segir Sigurður.

Kefla­vík og KR mætast ein­mitt í næstu um­ferð í gífur­lega mikil­vægum leik. „Vonandi fáum við fullt af fólki á völlinn og náum að stríða þeim.“

Liðið sem er verið að smíða saman í Kefla­vík hefur verið í stöðugri þróun undan­farin ár. Það var ný­liði í efstu deild í fyrra. „2019 var Kefla­vík í fimmta sæti í næst­efstu deild. Liðið hefur ekki verið það neðar­lega síðustu 40 ár að minnsta kosti. Það hefur verið stöðugur upp­gangur síðan og fram­farir. Við erum enn með þriðja eða fjórða yngsta liðið í deildinni, erum að þróa okkur á­fram og verða betri. Ég er bjart­sýnn að eðlis­fari og hef trú á liðinu.“

Sigurður tók einn við liði Kefla­víkur eftir síðasta tíma­bil. Hann hafði stýrt því á­samt Ey­steini Húna Hauks­syni í tvö ár. Hann segir það ekki sitt að segja til um hvort það hafi reynst rétt skref en að gengið sé í það minnsta gott.

„Við erum komnir með jafn­mörg stig og við fengum allt mótið í fyrra, erum að skora fleiri mörk og marka­talan betri. Mann­skapurinn er líka betri en í fyrra og liðið reyndara. Árið í fyrra var mikil­vægt fyrir okkar leik­menn til að fá reynslu í Bestu deildinni. Það er tekið eitt skref í einu og það hefði ekkert verið hægt að sleppa þessu þrepi sem við tókum í fyrra. Núna erum við svo bara á næsta þrepi. Mark­miðið er að halda á­fram og byggja ofan á það. Aðrir verða að dæma um það hvort þetta hafi verið góð ákvörðun eða ekki, að fela mér að vera með liðið,“ segir Sigurður Ragnar Eyjólfs­son, þjálfari Kefla­víkur.