Snorri Einarsson er íþróttamaður ársins hjá skíðasambandi Íslands í fjórða skipti og jafnframt fjórða árið í röð. Snorri hefur sýnt ákveðna yfirburði innan skíðasambandsins enda eini aðilinn sem tekur þátt í sterkustu mótaröð heims innan FIS, heimsbikarnum.

Hápunktur Snorra var á heimsmeistaramótinu í Seefeld í Austurríki þegar hann náði 18.sæti í 50 km göngu með frjálsri aðferð. Er þetta besti árangur hjá íslenskum skíðagöngumanni frá upphafi. Hann var einungis 18 sekúndum frá 3.sætinu í tæplega 2 klst langri keppni.

Einnig má nefna að Snorri hafði rásnúmer 52 en ræst var út eftir stöðu á heimslista og náði því að vinna sig mikið upp og í kjölfarið tók Snorri stórt stökk á heimslistanum. Á árinu hefur Snorri farið upp heimslistann í lengri vegalengdum og farið úr 288.sæti í 103.sæti.

Helgina eftir HM náði Snorri aftur glæsilegu móti þegar hann endaði í 26.sæti í heimsbikar í Oslo, Noregi, þá aftur í 50 km göngu. Snorri tók einnig þátt í Tour de Ski sem er hluti af heimsbikarmótaröðinni og fer fram um áramótin. Tour de Ski fer þannig fram að farnar eru sjö göngur (sprettur og lengri vegalengdir í bland) á níu dögum á alls fjórum keppnisstöðum í þremur löndum. Mikil þrekþraun þar sem Snorri endaði í 37. sæti í heildarkeppninni.

Snorri varð fjórfaldur Íslandsmeistari og vann allt sem hann gat á Skíðamóti Íslands.

Staða á heimslista:

 • Lengri vegalengdir: 103.sæti
 • Sprettur: 261.sæti

Helstu úrslit:

 • Heimsmeistaramótið í Seefeld, Austurríki (3.3.2019) - 18.sæti í 50 km C Mst
 • Heimsmeistaramótið í Seefeld, Austurríki (23.2.2019) - 39.sæti í 15/15 km C/F
 • Heimsbikar, Tour de Ski (6.1.2019) - 37.sæti í samanlögðum árangri
 • Heimsbikar í Oslo, Noregi (9.3.2019) - 26.sæti í 50 km C Mst
 • Heimsbikar í Ulricehamn, Svíþjóð (26.1.2019) - 34.sæti í 15 km F
 • Heimsbikar í Cogne, Ítalíu (17.2.2019) - 36.sæti í 15 km C
 • Heimsbikar í Davos, Sviss (15.12.2019) - 44.sæti í 15 km F

María Finnbogadóttir er íþróttakona ársins hjá skíðasambandinu í fyrsta sinn. María hefur bætt sig gríðarlega á árinu og er kominn í 395.sæti á heimslista í svigi eftir að hafa byrjað árið í 1244.sæti.

María keppti fyrir Íslands hönd á Heimsmeistaramótinu í Åre í Svíþjóð, þar sem hún endaði í 38.sæti í svigi og rétt missti af seinni ferð í stórsvigi þar sem hún endaði í 61.sæti, en einungis 60 efstu komust í seinni ferðina.

María stóð sig vel á mörgum öðrum mótum erlendis þetta árið og varð hún m.a. fimm sinnum í einu af 10 efstu sætunum og ber þar hæst 10. sæti á Slóvenska meistaramótinu í svigi í mars. Hún hefur einnig farið mjög vel af stað þennan veturinn og varð hún m.a. í 11. sæti á svigmóti í Pass Thurn í Austurríki 7.desember þar sem hún gerði sína bestu FIS stig á ferlinum, 45,22 stig.

María varð Íslandsmeistari í svigi árið 2019 og endaði í 6.sæti í stórsvigi á Skíðamóti Íslands.

Staða á heimslista:

 • Svig: 395.sæti
 • Stórsvig: 1423.sæti

Helstu úrslit:

 • Heimsmeistaramótið í Åre, Svíþjóð (16.2.2019) - 38.sæti í svigi
 • Alþjóðlegt FIS mót í Turnau, Austurríki (12.1.2019) - 6.sæti í svigi
 • Alþjóðlegt FIS mót í Rogla, Slóveníu (3.3.2019) - 9.sæti í svigi
 • Alþjóðlegt FIS mót í Hinterreit, Austurríki (21.3.2019 - 9.sæti í svigi
 • Alþjóðlegt FIS mót (landsmót) í Krvavec, Slóveníu (24.3.2019) - 10.sæti í svigi
 • Alþjóðlegt FIS mót í Pass Thurn, Austurríki (7.12.2019) - 11.sæti í svigi
María Finnbogadóttir er skíðakona ársins 2019.
Mynd/skíðasamband Íslands