Stöðva þurfti æfingar í Formúlu 1 kappaksturskeppninni í Barcelona í dag enda snjór á æfingarbrautinni þrátt fyrir að tilraun hafi verið gerð til að ryðja brautina.

Var þetta þriðji æfingardagur liðanna fyrir komandi tímabil í Formúlunni en aðeins tveir ökuþórar treystu sér út á brautina og komu þeir báðir strax inn eftir einn hring.

Fá liðin aðeins tvær æfingarvikur á brautum áður en keppnin hefst í lok mars í Melbourne, Ástralíu.

Reynt var að ryðja brautina strax í morgun en í ljósi þess að neyðarþyrla gat ekki komist að vellinum í hvelli var ákveðið að fresta æfingunni.

Síðar um daginn þegar búið var að snjóa meira var svo ljóst að það þýddi ekkert að berjast gegn veðrinu og gáfust menn bara upp.

Búist er við betra veðri á morgun á lokadegi þessarar æfingarviku en liðin fá aðra æfingarviku í byrjun mars.