Var ekki sami maður og áður

„Þetta er saga um mig, en í raun og veru er þetta saga um bróður minn Lou,“ á þessum orðum hefst pistill Lingard.

Lingard átti erfitt uppdráttar hjá Manchester United á fyrri hluta síðasta tímabils, honum leið illa andlega og líkamlega. Aðstæður utan vallar voru líka erfiðar. Móðir hans var að glíma við þunglyndi og það hafði mikil áhrif á Lingard.

Hann átti erfitt með að komast í liðið hjá Manchester United og ef hann fékk að spila þá stóð hann ekki undir væntingum. „Fjölskyldan mín mætti á leiki en ég var ekki sami maðurinn og þau þekktu. Leikirnir héldu áfram að koma en ég var ekki viðstaddur, ég var draugur,“ skrifar Jesse Lingard.

Mánuðurnir liðu og Lingard segir frá því að hann hafi eiginlega verið feginn þegar að sett var á útgöngubann í Bretlandi á þessum tíma sökum kórónuveirufaraldursins. „Þarna kom tækifæri fyrir mig til þess að byrja upp á nýtt,“ skrifar Lingard.

Lingard og eldri bróðir hans, Lou, hafa alla tíð verið mjög nánir, Lou hefur alltaf staðið þétt við bakið á yngri bróður sínum. Lingard segir frá því hvernig Lou hafði lagt mikla áherslu á að halda sér á tánum. Í hvert skipti sem að Lou vissi að Lingard lið illa hafi hann reynt að kippa honum upp.

„Hann sendi mér myndbrot af sjálfum mér vera að skora mörk, spila á Heimsmeistaramótinu, vinna til verðlauna og með myndbrotunum sendi hann skilaboð. ´Sjáðu hvað þú getur gert, trúðu á sjálfan þig, þú ert gæða leikmaður," voru oftar en ekki skilaboðin sem fylgdu myndbrotunum.

GettyImages

Tækifæri til að byrja upp á nýtt

Hvatning Lou átti eftir að veita Lingard innblástur. Hann fann loksins kjark til að tala við Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóra Manchester United og segja honum hvernig líðan sín hefði verið. „Þetta var ekki auðvelt en Ole er meira en knattspyrnustjóri, hann er vinur...hans svar var að ég hefði átt að leita til hans fyrr,“ skrifar Lingard.

Lingard vildi reyna fyrir sér hjá öðru liði og fara á láni þegar að félagsskiptaglugginn myndi opna í janúar árið 2021. Það yrði nýtt upphaf. Á síðasta degi félagsskiptagluggans fór hann á láni til West Ham United.

Markmiðasetning skipti sköpum

Lingard flutti með eldri bróður sínum Lou til London þar sem þeir bjuggu saman til loka tímabilsins. „Það fyrsta sem Lou gerði er við fluttum inn í íbúðina var að hengja upp tvær töflur. Önnur taflan var fyrir markmið, hin fyrir hvatningu,“ skrifar Lingard í pistlinum.

Markmiðin fólust til dæmis í fjölda stoðsendinga, marka og hlaupinni vegalengd í leikjum, á hina töfluna voru skrifuð lykilhugtök og heilræði. Markmiðasetningin hjálpaði Lingard, hann fór að gefa stoðsendingar og skora mörk. Það leiddi til þess að hann var tilnefndur sem leikmaður mánaðarins í ensku úrvalsdeildinni þrjá mánuði í röð.

„Leikmaðurinn sem þið sáuð hjá West Ham er leikmaðurinn sem ég get orðið ef allt gengur upp. Þetta var uppfærð útgafa af mér, Jesse 2.0, sjáum hvað ég get gert í framhaldinu. Þetta er nýtt upphaf fyrir mig, fyrir okkur, því Lou er enn minn einkaþjálfari og stuðningsmaður, hann mun alltaf standa með mér," skrifaði Jesse Lingard í pistli sem birtist hjá The players tribune.