„Það sást strax þegar ég sá hana fyrst að hún væri með ofboðslega mikla hæfileika. Þegar ég hugsa til baka, þá sér maður að hún stefndi alltaf í fremstu röð,“ segir Arngrímur Jóhann Ingimundarson, yfirþjálfari yngri flokka kvenna hjá Fjölni, sem gaf Sveindísi Jane eldskírn sína í meistaraflokki með Keflavík þann 25. maí árið 2015 þegar Sveindís var ekki orðin fjórtán ára gömul.

„Hún er jarðbundin og vissi hvaða leið hún ætlaði að fara. Þessi skref sem hún tók, fyrst með Keflavík, svo eitt ár í Breiðablik, eitt ár hjá Kristianstads og núna Wolfsburg, auðveldar henni að taka hvert skref því hún var alltaf vel undirbúin.“

Sveindís varð þýskur meistari um helgina og vakti verðskuldaða athygli með frammistöðu sinni í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu á dögunum.

„Það kemur mér því ekki á óvart að hún sé komin á þennan stall,“ segir Arngrímur sem tekur undir að hún gæti komist í fremstu röð á heimsvísu innan skamms.

„Hún hefur alla burði til þess, bæði metnaðinn og skynsemina. Hún er að gera þetta á réttum forsendum, hefur gaman af þessu og setur ekki of mikla pressu á sig.“

Hann tekur undir að það sé skrýtið að hugsa til baka til þess að Sveindís hafi leikið fyrsta leik sinn í meistaraflokki þrettán ára gömul en að hæfileikarnir hafi verið slíkir.

„Að okkar mati var hún í sérflokki á landsvísu þegar kom að hæfileikum í 4. flokki á sínum tíma. Það virtist sem hún hefði verið með boltann við löppina frá því að hún vaknaði þar til hún fór að sofa og var í þessu af heilum hug.“