Guðjón Valur kveður sem markahæsti landsliðsmaður sögunnar hjá íslenska landsliðinu, markahæsti leikmaður frá upphafi í sögu Evrópumótanna og er í þriðja sæti meðal markaskorara í lokakeppnum heimsmeistaramóta.

Ferill Guðjóns Vals hófst á Seltjarnarnesinu en árið 1995 lék hann sinn fyrsta leik í meistaraflokki fyrir Gróttu/KR sem lék þá í næstefstu deild. Þessi 16 ára pjakkur lék þá undir stjórn Ólafs Lárussonar sem ræddi við Fréttablaðið um Guðjón Val.

„Það var ljóst þegar Guðjón Valur var svona 14-15 ára að hann ætlaði sér að ná langt í handboltanum. Það komst ekkert annað að hjá honum og hann var klár í að leggja þetta auka á sig til þess að komast í fremstu röð. Á þessum tíma var Alexander Petersson einnig í herbúðum okkar. Þeir eru svipaðar týpur að mínu mati, miklir íþróttamenn með mikið keppnisskap og þrá til þess að ná eins langt í íþróttinni og mögulegt er,“ segir Ólafur um sinn fyrrverandi lærisvein.

„Ég man til að mynda eftir partíi sem haldið var hjá leikmannahópi Gróttu/KR. Um miðjan gleðskapinn fóru Guðjón og Alexander að þrátta um það hvor væri sneggri að að skila sér til baka í vörnina þegar andstæðingurinn væri á leið í hraðaupphlaup. Það endaði með því að þeir útkljáðu rifrildið með því að fara í kapphlaup. Þetta segir sitt um hugarfar þeirra og vilja til þess að skara fram úr og gera liðinu gagn á báðum endum vallarins,“ segir hann enn fremur.

„Guðjón var óttaleg písl þegar hann var unglingur en með mikinn sprengikraft og gat leikið sem skytta og hornamaður. Þegar Guðjón var síðan svona 16-17 ára gamall tók Gauti Grétarsson hann upp á sína arma. Lagaði mataræðið og skrokkinn með styrktar- og sprengikraftsæfingum. Það var allt annað að sjá hann eftir nokkur ár undir handleiðslu Gauta. Hann gat vel leikið sem skytta en fór að einbeita sér meira að því að leika í horninu sem reyndist gæfuspor. Það var aftur á móti gott vopn að hann gat lyft sér upp fyrir utan og sumir þjálfarar lögðu upp úr því á ferli hans,“ segir þjálfarinn gamalreyndi.

„Ég heimsótti Guðjón nokkrum sinnum út eftir að hann fór að leika erlendis. Það var auðséð að hann var mikils metinn alls staðar þar sem hann spilaði. Guðjón gaf mikið af sér og er drífandi í hóp. Eitt dæmi er þess er að hann hjálpaði danska landsliðsmanninum Mads Mensah mikið þegar þeir spiluðu saman hjá Rhein-Neckar Löwen eftir að Mensah var að koma til baka úr meiðslum. Svo eru fleiri dæmi um slíkt frá félagsliðaferlinum. Það verður vissulega skrýtið að horfa á landsliðið í komandi leikjum og stórmótum án hans þar sem landsliðsferillinn hefur verið svo langur og glæsilegur,“ segir Ólafur.

Guðjón Valur lauk ferli sínum sem leikmaður franska liðsins PSG. Hann hefur verið sigursæll með félagsliðum sínum í gegnum tíðina. Guðjón vann EHF-keppnina með Essen, varð danskur meistari og bikarmeistari með AG, þýskur meistari með Kiel tvisvar og bikarmeistari árið 2013. Með Barcelona varð Guðjón spænskur meistari tvívegis. Vorið 2015 var Guðjón Valur í sigurliði Barcelona í Meistaradeild Evrópu. Til viðbótar varð Guðjón Valur þýskur meistari með Rhein-Neckar Löwen árið 2017 og bikarmeistari árið eftir. Hann lauk svo ferli sínum sem franskur meistari hjá PSG.

Guðjón lék sinn fyrsta A-landsleik gegn Ítalíu á alþjóðlegu móti í Haarlem í Hollandi 15. desember 1999, þá tvítugur að aldri. Hann tók þátt í sínu 22. stórmóti á ferlinum þegar hann spilaði á Evrópumótinu í janúar fyrr á þessu ári. Hann missti einungis af einu stórmóti þar sem Ísland átti þátttökurétt á öldinni, það er HM 2019. Hann vann til silfurverðlauna með íslenska landsliðinu á Ólympíuleikunum í Peking árið 2008 og til bronsverðlauna á Evrópumótinu í Austurríki árið 2010.

Guðjón Valur var kjörinn íþróttamaður ársins árið 2006. Þessi frábæri hornamaður varð deildarmeistari með KA árið 1998. Guðjón varð markakóngur þýsku efstu deildarinnar árið 2006 sem leikmaður Gummersbach. Hann er einn af þremur íslenskum handknattleiksmönnum sem hefur tekist það. Hinir eru Sigurður Valur Sveinsson og Bjarki Már Elísson, sem náðu því báðir sem leikmenn Lemgo.