Snæfríður Sól Jórunnardóttir sló eigið Íslandsmet þegar hún synti í undanrásum í 200 metra skriðsundi á Ólympíuleikunum í Tókýó í morgun.

Snæfríður Sól kom í bakkann á tímanum 2:00,20 sekúndum en hún bætti Íslandsmet sitt um 30/100 úr sekúndu. Þessi tvítuga sundkona er að keppa á sínum fyrstu Ólympíuleikum fullorðinna.

Þessi tími skilaði Snæfríði Sól í 22. sæti í undanrásum greinarinnar en 16 bestu tímarnir tryggja farseðil í undanúrslit. Snæfríður Sól kemst þar af leiðandi ekki í undanúrslitin.

„Það er mjög spennandi að vera að taka þátt í Ólympíuleikum fullorðinna í fyrsta skipti og alveg frábært að vera loksins komin hingað. Það eru margar nýjar upplifanir strax fyrstu dagana og ég er mjög ánægð að hafa öðlast reynslu á Ólympíuleikum ungmenna í Búen­os Aíres árið 2018.Sú reynsla sem ég hlaut þar er alveg klárlega að nýtast mér hérna,“ segir sundkonan um fyrstu dagana í Ólympíuumhverfinu

„Þetta eru mínir fyrstu Ólympíuleikar og því er stærsta markmiðið hjá mér að safna í reynslubankann og njóta þess í botn að vera hérna. En að sjálfsögðu ætla ég að gera mitt allra besta til að synda eins hratt og ég mögulega get. Við sjáum svo bara til hverju það skilar mér,“ sagði Snæfríður Sól í samtali við Fréttablaðið um markmið sín fyrir leikana.

Snæfríður Sól mun keppa í undanrásum í 100 metra skriðsundi á miðvikudaginn kemur um klukkan 10.00 að íslenskum tíma.