Sundkonan Snæfríður Sól Jórunnardóttir bætti persónulegt met sitt í 100 metra skriðsundi þegar hún keppti í undanrásum í greininni á Ólympíuleikunum í Tókýó í morgun.

Snæfríður Sól kom í bakkann á tímanum 56,15 sekúndum og varð í fjórða sæti í sínum riðli. Besti tími í greininni fyrir keppnina í dag var 56,32 sek og bætti Snæfríður Sól sig því um 17/100 úr sekúndu.

Hún rak lestina eftir fyrri 50 metrana í sundinu í dag en hún synti þá á 27,17 sekúndum. Snæfríður Sól spýtti hins vegar í lófana á seinni 50 metrunum og hífði sig upp í fjórða sætið í sínum riðli.

Tíminn skilaði Snæfríði Sól í 34. sæti í undanrásunum. Þar með er ljóst að hún kemst ekki í undanúrslitin þar sem 16 bestu tímarnir skila sæti í því sundi.

Íslandsmetið í 100 metra skriðsundi á Ragnheiður Ragnarsdóttir en hún synti á 55,66 sekúndum árið 2009.

Snæfríður Sól keppti einnig í 200 metra skriðsundi á leikunum sem eru hennar fyrsti í fullorðinsflokki. Þar setti hún Íslandsmet og því getur hún farið sátt frá Tókýó.