Sundkonan Snæfríður Sól Jórunnardóttir keppti um helgina á danska Vest Junior/Senior meistaramótinu í 25 metra laug.

Snæfríður synti í tveimur greinum á mótinu, 100 og 200 metra skriðsundi og bar sigur úr býtum í þeim báðum. Þetta var fyrsta mót keppnistímabilsins en Snæfríður Sól syndir fyrir AGF.

Hún synti á góðum tímum í báðum greinum en Snæfríður kom í bakkann á 56,06 mínútum í 100 metra skriðsundi og 1:59,79 mínútum í 200 metra skriðsundi sem er innan við sekúndu frá Íslandsmeti hennar í greininni sem er 1:58,97 mínútur.

María Fanney Kristjánsdóttir keppti svo svo Austur-Danmerkurmeistaramótinu sem haldið var í Søborg um helgina en hún æfir undir handleiðslu Arnar Arnarsonar, yfirþjálfara sundfélagsins Kvik Kastrup. 

María Fanney synti fimm greinar á mótinu og stóð sig með ágætum á þessu fyrsta meistaramóti sundársins í Danmörku. Hún náði að bæta sinn besta árangur í öllum greinunum sem hún tók þátt í.

Tímar hennar voru eftirfarandi: 50 metra bringusund 34,95 sekúndur, 200 metra flugsund 2:23,93 mínútur, 200 metra fjórsund 2:21,47 mínútur, 400 metra fjórsund 5:00,58 mínútur, 200 metra bringusund 2:41,45 mínútur.