Snæfell náði að saxa á KR í baráttunni um fjórða og síðasta sætið sem veitir þáttökurétt í úrslitakeppninni í Dominos-deild kvenna í kvöld á sama tíma og toppliðin þrjú unnu öll leiki sína.

Snæfell var fjórum stigum á eftir KR fyrir leikinn í kvöld og byrjaði heimaliðið leikinn af krafti. Snæfell leiddi með ellefu stigum eftir fyrsta leikhluta og þrettán stigum í hálfleik sem lagði grunninn að sigrinum.

Lokatölurnar voru 89-81 fyrir Snæfelli sem er tveimur stigum á eftir KR þegar þrír leikir eru eftir en KR á innbyrðis viðureignina á Snæfell.

Á sama tíma unnu toppliðin tvö, Keflavík og Valur, sannfærandi sigra á sama tíma og Stjarnan átti í eilitlum vandræðum gegn Borgnesingum en gerði nóg til að vinna leikinn.

Skallagrímur náði að minnka muninn í þrjú stig í Garðabænum þegar tæp mínúta var eftir en Jóhanna Björk Sveinsdóttir kláraði leikinn með körfu á hinum enda vallarins stuttu síðar.