Emile Smith Rowe hefur skrifað undir langtímasamning við Arsenal en þessi tvítugi sóknartengiliður skoraði fjögur mörk og gaf sjö stoðsendingr í þeim 33 leikjum sem hann spilaði fyrir Skytturnar í öllum keppnum á síðasta keppnistímabili.

Smith Rowe mun leika í búningi með númerið 10 aftan á treyjunni á næstu leiktíð en Mesut Özil hefur verið með það númer hjá liðinu undanfarin ár.

Auk þess að spila með Arsenal hefur Smith Rowe leikið sem lánsmaður hjá Huddersfield og RB Leipzig. Þá hefur hann leikið með yngri landsliðum Englands.

Af öðrum fréttum úr herbúðum Arsenal ná er liðið nálægt því að festa kaupa á Ben White, varnarmanni Brighton og afar líklegt er að Granit Xhaka muni ganga til liðs við Roma í sumar.