Byrjað er að fella niður æfingar hjá körfuknattleiksdeild Stjörnunnar. Þá hafa smit verið að greinast í hinum ýmsu greinum. Þannig hefur verið sendur póstur á foreldra í fimleikum og fótbolta þar sem ítrekað er að börn sem einhver einkenni hafa mæti ekki til æfingar. Þá er mikið um forföll í skólastarfi en bæði nemendur og kennarar eru smitaðir eða í sóttkví. Um er að ræða hátt í 200 einstaklinga úr Flata- og Hofstaðaskóla sem eru fjarverandi.

„Því miður er töluvert um smit í Garðabænum og nokkrir iðkendur deildarinnar eru veikir með Covid," segir í pósti frá fimleikadeild Stjörnunnar en fleiri deildir hafa sent út sama póst á foreldra.

Villibráðakvöldið hjá körfuknattleiksdeild Stjörnunnar fór fram á Sjálandi síðasta föstudagskvöld. Pétur Jóhann Sigfússon, Páll Rósinkranz, Friðrik Dór Jónsson og Dóra Júlía sáu um skemmtiatriði á kvöldinu.

Villibráðakvöldið var vel sótt en hefur skilað sér í smitum og sóttkví.

Vel var mætt á kvöldið en samkvæmt heimildum Fréttablaðsins hefur fjöldi einstaklinga greinst með COVID-19 eftir kvöldið. „Ég hef heyrt af einhverju, smitrakningarteymið sagði við einn að hann hefði örugglega verið smitaður fyrir föstudag. Ég hef ekki heyrt mikið um einhver smit," segir Hilmar Júlíusson formaður körfuknattleiksdeildar Stjörnunnar í samtali við Fréttablaðið í gær.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins hefur enginn starfsmaður Sjálands greinst smitaður eftir kvöldið. Einn einstaklingur sem Fréttablaðið ræddi við var á kvöldinu, á borðinu sem sá einstaklingur sat á höfðu þrír greinst smitaðir eftir kvöldið.

Íbúar ósáttir:

Töluvert er um óánægju á meðal íbúa í Garðabæ um hversu litlar upplýsingar eru veittar um stöðu mála í bæjarfélaginu.

„Mæli ekki með að koma í Garðabæinn og alls ekki að fara á veitingastaði í bænum. Þvílíkt pestarbæli þessa dagana en ekkert virðist hafa frést. Það var villibráðarkvöld á Sjálandi á föstudagskvöldið og heil hrúga að greinast smituð. Smit í Garðaskóla, Flataskóla og Hofstaðaskóla amk sem ég hef heyrt af. Ég er mjög ósatt við skólana og bæinn fyrir lélega eða réttara sagt nánast enga upplýsingagjöf," skrifar Jóhanna Jakobsdóttir rannsóknasérfræðingur við Miðstöð í lýðheilsuvísindum á Twitter.

Fréttablaðið ræddi við foreldra barna sem stunda íþróttir í Stjörnunni, eru þau hrædd við ástandið enda flest börnin óbólusett. Litlar upplýsingar hafa fengist nema fjöldapóstar sem rignt hefur yfir foreldra í dag.

„Það er hálfur Garðarbærinn í sóttkví," sagði heimildarmaður Fréttablaðsins sem sat í sóttkví en vildi ekki láta nafn síns getið.

Einhverjir foreldrar ætla ekki að senda börn sín til æfinga. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins hefur það komið til umræðu innan Stjörnunnar að loka íþróttaheimilum félagsins og stöðva æfingar á meðan verið er að ná utan um þessa bylgju sem nú er í bæjarfélaginu.

Ekki náðist í Gunnar Einarsson bæjarstjóra Garðabæjar við vinnslu fréttarinnar, þá svaraði Áslaug Hulda Jónsdóttir bæjarfulltrúi ekki í síma. Sömu sögu er að segja um Kára Jónsson Íþrótta-, tómstunda- og forvarnarfulltrúa og Eddu Björg Sigurðardóttur grunn og tónlistaskólafulltrúa.

200 greindust með COVID-19 veiruna á Íslandi í gær en til umræðu er að herða vel á aðgerðum hér á landi.