„Miðað við lýsingar af sóttvarnarráðstöfunum á staðnum kemur það mér ekkert sérstaklega á óvart,“ segir Þórólfur um smit innan íslenska karlalandsliðsins í handbolta.

Að minnsta kosti tíu smit hafa greinst hjá leikmönnum liðsins frá því að þeir komu til Ungverjalands auk eins hjá starfsmanni liðsins. Björgvin Páll Gústavsson, markmaður liðsins, greindi frá því fyrr í dag að hann er laus úr einangrun aðeins sex dögum eftir að hann greindist.

Þórólfur segir að margir fari að sýna neikvætt stuttu eftir greiningu en að hér á landi hafi yfirvöld ekki tök á að skima fólk daglega eða oftar en er gert núna.

„Í heilu samfélagi eins og hér þá náum við ekki að testa alla aftur á nokkurra daga fresti og þess vegna höfum við bundið einangrun við sjö daga, sem er styttra en margir eru með.“