Stjarnan sendi skömmu fyrir miðnætti frá sér tilkynningu til iðkenda og forráðamanna félagsins þar sem fram kemur að leikmaður í karlaliði félagsins í knattspyrnu hafi greinst með COVID-19 smit.

Þar segir að engar æfingar eða leikir muni fara fram á æfingasvæði Stjörnunnar við Ásgarð á morgun þar sem svæðið verður sótthreinsað af starfsmönnum félagsins.

Enn fremur segir að Stjarnan muni vera í samráði við Almannavarnir og KSÍ hvað næstu skref varðar. Leikmenn og forráðamenn karlaliðs Stjörnunnar í knattspyrnu eru á leið í sóttkví sem verður að öllum líkindum tveir vikur.

Á næstu tveimur vikum átti Stjarnan að spila þrjá leiki á Íslandsmótinu en fyrirhugað var að Garðabæjarliðið myndi mæta KA á sunnudaginn kemur, FH 5. júlí og KR 9. júlí. Þessum leikjum verður öllum frestað vegna sóttkvíarinnar.

Tilkynningu Stjörnunnar má lesa í heild sinni hér að neðan:

„Nú í kvöld bárust fregnir af því að leikmaður karlaliðs Stjörnunnar í knattspyrnu er smitaður af Covid-19.

Sökum þess hefur verið ákveðið að allar æfingar sem fara áttu fram á svæði knattspyrnudeildar Stjörnunnar munu falla niður þar sem starfsmenn félagsins munu sótthreinsa félagsaðstöðuna.

Umf Stjarnan mun vinna náið með Almannavörnum og KSÍ á næstu klukkutímum og kappkosta við það að koma frekari upplýsingum á framfæri þegar að þær liggja fyrir."