Tiger Woods, einn besti kylfingur allra tíma, er nú í aðgerð eftir að hann lenti í bíl­slysi í Los Angeles fyrr í dag en klippa þurfti Woods út úr bílnum eftir slysið. Að sögn um­boðs­manns Woods meiddist hann á nokkrum stöðum á fótunum og var því sendur í aðgerð.

Sam­tök at­vinnu­kylfinga í Banda­ríkjunum, PGA, tjáði sig um málið á Twitter í kvöld þar sem fram kom að sam­tökin væru með­vituð um slysið og biðu nú frekari upp­lýsinga. „Tiger er í okkar bænum og mun hafa allan okkar stuðning meðan hann nær sér,“ segir í til­kynningu PGA.

Margir velta nú fyrir sér hvaða á­hrif meiðslin geta haft á feril Woods en hann hefur verið að glíma við bak­vanda­mál síðast­liðin ár. Hann var ný búinn að ná sér árið 2019 en meiddist síðan aftur á dögunum.

Andy Scho­les, í­þrótta­frétta­maður hjá CNN, segir að slysið í dag gæti haft gífur­leg á­hrif. „Við gætum verið að horfa upp á enda­lok gull­ferils Tigers Wood. Vonum bara að það sé í lagi með hann,“ sagði Scho­les um málið.

Enn er óljóst í hvaða ástandi Woods er í og hver orsök slyssins var. Fjölmargir hafa nú óskað Woods skjótum bata á samfélagsmiðlum.