Stúkan í Smáranum er úr sér gengin og orðin að slysa­gildru. Körfu­bolti er oln­boga­barn í Kópa­vogi og bæjar­full­trúar hlusta ekki á stjórnar­menn í körfu­bolta­deild Blika sem vilja sækja iðk­endur í efri byggðir.

Sig­ríður H. Kristjáns­dóttir, frá­farandi for­maður stjórnar körfu­knatt­leiks­deildar Breiða­bliks, skrifaði nokkuð harð­orðan pistil í árs­skýrslu deildarinnar sem lögð var fram á aðal­fundi fé­lagsins.

Hún segir að mörgu þurfi veru­lega að bæta úr. Til dæmis að körfu­bolta­deildin í Breiða­bliki geti þjónu­stað börn í efri byggðum Kópa­vogs en HK er ekki með körfu­bolta­deild. „Deildin er með í­þrótta­hús Smárans frá 15 alla virka daga en frá há­degi á laugar­dögum. Þá eru deildinni út­hlutaðir tímar í í­þrótta­húsum Fagra­lundar, Linda­skóla og Kárs­nes­skóla.

Hins vegar hefur deildin sótt það fast að fá að­stöðu í efri byggðum Kópa­vogs og ár eftir ár er sóst eftir tímum í í­þrótta­húsi Digra­ness sem og Kórnum og Vatns­enda­skóla en þeirri beiðni er á­vallt hafnað án þess að rök séu færð fyrir þeirri á­kvörðun bæjarins.

Stjórnin telur mikil­vægt að fá æfinga­tíma í öðrum í­þrótta­húsum til að þjónusta börn í efri byggðum betur. Tímar sem deildinni hafa verið út­hlutaðir til dæmis í Fagra­lundi eru af­leitir og nýtast deildinni illa,“ skrifaði Sig­ríður.

Hún til­tók líka stúkuna í Smáranum og segir hana hafa verið til vand­ræða svo árum skiptir. „Eftir mót og heima­leiki getur tekið allt frá hálf­tíma upp í tvær klukku­stundir að koma stúkunni inn á sinn stað. Það segir sig sjálft að slíkt er hreint ekki boð­legt og ekki leggjandi á sjálf­boða­liða að standa í slíku, sjálf­boða­liða sem al­mennt eru for­eldrar yngri iðk­enda sem og iðk­endurnir sjálfir.“

Hún skrifar að við­ræður við bæjar­yfir­völd síðustu ár hafi verið fyrir daufum eyrum. „Að mínu mati þarf nú að fara í harðar að­gerðir og við­ræður er snúa að því að deildin fái að­gang að í­þrótta­húsum í efri byggðum svo­sem Digra­nesi, þá þarf deildin fleiri og betri tíma í Fagra­lundi og úr­lausn á stúku­málum í Smáranum, áður en ein­hver hrein­lega slasast.“

Sig­ríður lét af for­mennsku fyrir skemmstu og vildi lítið bæta við pistilinn þegar eftir því var leitað. Aðrir stjórnar­menn vildu ekki tjá sig mikið opin­ber­lega, sögðu málið vera á við­kvæmu stigi og að ekki mætti stíga á tærnar á pólitíkusum því þeir gætu ein­fald­lega farið í fýlu – sem væri ekki gott.

Jón Finn­boga­son, for­maður Í­þrótta­nefndar Kópa­vogs, sagði ein­fald­lega: „Ég spjalla ekki við blaða­menn.“

Erfitt með utandeildina

Í skýrslu körfuboltadeildarinnar kemur fram að umsjón með utandeildinni fylgi töluverð vinna og mikið kvabb. „Almenn ánægja er með framkvæmdina en leikmenn meistaraflokka sjá um að manna ritaraborð á heimaleikjum, sem og dómgæslu og ritaraborð í Utandeild auk dómgæslu í (Póst)mótinu, turneringum og leikjum yngri flokka. Utan ofangreinds taka leikmenn meistaraflokka einnig þátt vinnu við aðrar fjáraflanir sem til falla, svosem teppalagningu og slíkt. Ljóst er að finna verður aðrar leiðir til að manna utandeild eða hreinlega leggja hana niður þar sem vinnuframlag meistaraflokksleikmanna er líklega með því mesta sem þekkist í körfuknattleikshreyfingunni.“