Slóveninn Luka Doncic mun byrja fyrir hönd Vesturdeildarinnar í hinum árlega stjörnuleik og verður með því yngsti byrjunarliðsmaðurinn síðan LeBron James árið 2005.

Tilkynnt var í nótt hvaða tíu leikmenn hefðu skarað fram úr í kosningu aðdáenda og myndu byrja leikinn sem fer fram í United Center, höll Chicago Bulls.

Los Angeles Lakers á flesta fulltrúa eða tvo, LeBron James og Anthony Davis og mynda þeir lið Vesturdeildarinnar ásamt Kawhi Leonard, Luka Doncic og James Harden.

Doncic er á öðru ári sínu með Dallas Mavericks og hefur gjörbreytt gengi liðsins á stuttum tíma eftir að hafa þar áður farið fyrir liði Real Madrid sem vann alla þá titla sem í boði voru. Hinn tvítugi Doncic var einnig í liði Slóvena sem urðu Evrópumeistarar árið 2017.

Það er einnig einn nýliði í byrjunarliði Austurdeildarinnar, bakvörðurinn Trae Young sem leikur með Atlanta Hawks. Doncic var í fyrstu valinn af Hawks en Dallas og Atlanta skiptu á Young og Doncic á kvöldi nýliðavalsins.

Young til aðstoðar verða þeir Giannis Antetokounmpo, Pascal Siakam, Joel Embiid og Kemba Walker.