Slóvenía vann öruggan 4-0 sigur þegar liðið mætti Færeyjum í undankeppni HM 2019 í knattspyrnu kvenna. Liðin eru með Íslandi í E-riðli undankeppninnar, en Slóvenía sækir íslenska liðið heim á Laugardagsvöll í sjöttu umferð riðlakeppninnar á mánudginn kemur. 

Mateja Zver, fyrrverandi leikmaður Þórs/KA skoraði tvö marka slóvenska liðsins og Lara Iv­anusa og Lara Prašnik­ar sitt markið hvor. 

Slóvenía er með sex stig í fjórða sæti riðislsins eftir þennan sigur, en Ísland er hins vegar í öðru sæti með 13 stig og er tveimur stigum á eftir Þýskalandi sem trónir á toppi riðilsins. 

Ísland á leik til góða á þýska liðið og getur skotist upp á topp riðilsins með sigri gegn Slóveníu á mánudaginn kemur. Íslenska liðið fær svo Þjóðverja í heimsókn í toppslag riðilsins 1. september næstkomandi. 

Ísland mætir svo Tékklandi á heimavelli í síðustu umerð undankeppninnar á meðan Þýskaland sækir Færeyjar heim.