Íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu mætir Slóvakíu í afar mikilvægum leik ytra í dag, þar sem sigur heldur draumnum á lífi um beint sæti á Evrópumótinu í knattspyrnu sem fer fram árið 2022. Um leið tryggir sigur stelpunum okkar minnst annað sætið í riðlinum og um leið sæti í umspili sex liða um þrjú sæti á EM, sem fer fram í Englandi sumarið 2022.

Jafntefli myndi svo gott sem tryggja annað sætið um leið fyrir lokaumferðina þegar Slóvakar heimsækja Svía en þjálfari íslenska liðsins, Jón Þór Hauksson, hafði orð á því á dögunum að markmiðið fyrir undankeppnina hefði verið að komast beint inn í lokakeppnina, með því að fá að minnsta kosti stig gegn Svíum og vinna rest.

Þetta verður fjórða viðureign liðanna, fimm árum eftir þá fyrstu og hafa íslensku stelpurnar alltaf fagnað sigri til þessa. Síðast mættust liðin á Laugardalsvelli síðastliðið haust þar sem Ísland vann 1-0 sigur með marki frá Elínu Mettu Jensen um miðbik seinni hálfleiks.

Slóvaka vel skipulagðir og fastir fyrir

Í leiknum gekk leikskipulag Slóvaka um að spila fast fyrir og verja stigið inn í seinni hálfleik, þar til Elín Metta braut ísinn. Það reyndist eina mark leiksins þó að Slóvakar hafi fengið færi til að stela stigi undir lokin.Slóvakía eygir enn veika von um að komast í umspilið með sigri á Íslandi og með því að ná betri úrslitum en Íslendingar í lokaumferðinni þegar stelpurnar okkar heimsækja Ungverja, en Ísland gerir út um vonir Slóvaka með sigri.

Fanndís Friðriksdóttir sem byrjaði leikinn gegn Slóvökum á Laugardalsvelli segir að það verði áhugavert að sjá leikskipulag Slóvaka í kvöld og hvort að Slóvakar hafi trú á því að þær geti komist í umspilið með sigri á Íslandi og Svíþjóð.

„Ég á von á því að þetta verði erfiður leikur. Það er alltaf erfitt að spila leiki sem maður á að vinna sem verjast aftarlega og það skiptir öllu að ná að brjóta ísinn snemma. Þær reyndu svolítið að pakka í vörn og verja stigið á Laugardalsvelli og fyrir fram á maður von á því að þær leiti í sama skipulag til að byrja með í dag.

Maður veit ekki hversu bjartsýnar þær eru fyrir þetta verkefni. Þær eiga enn möguleika á því að ná öðru sæti, ef þær ná úrslitum í næstu tveimur leikjum. Fyrir fram er það ólíklegt og maður veit ekki hversu mikla trú þær hafa á því,“ segir Fanndís og tekur undir að það gæti hentað íslenska liðinu vel ef Slóvakar ætli að sækja.

„Ef þær koma inn í leikinn með það sem markmið að sækja á íslenska liðið gæti það nýst okkur vel. Ef framlínan okkar, sem hefur mikinn hraða, hittir á góðan dag gæti plássið nýst okkur. Þegar lið sitja svona nærðu ekki að nýta hraðann jafn vel, þá þarf að nota klókindi og við erum með nóg af klókum leikmönnum í liðinu.“

Mikilvægt að ná að brjóta ísinn snemma

Íslenska liðið er í harðri baráttu við eitt af stigahæstu liðunum í öðru sætinu í undankeppninni og það kemur til greina að markatalan telji.

„Ef það tekst að brjóta ísinn snemma og koma inn marki eiga varnarsinnuð lið það til að brotna. Því lengur sem þær halda hreinu, því meiri kraft fá þær. Ef stelpurnar ná marki snemma gæti þetta endað á stærri sigri, en ef það er bið eftir fyrsta markinu gæti þetta orðið spennandi allt til loka. Það yrði frábært að ná að skora nokkur mörk því markatalan gæti skipt máli þegar riðlakeppninni lýkur.“

Fanndís, sem er ein af leikjahæstu leikmönnum kvennalandsliðsins frá upphafi, er fjarverandi í dag enda á hún von á fyrsta barni sínu á nýju ári. Hún hefur verið viðloðandi nokkra leikmenn úr landsliðinu og segir þær allar einblína á sama markmið.

„Ég hef umgengist landsliðskonurnar í Valsliðinu undanfarnar vikur og þær eru allar sammála um að krafan sé að komast á EM í fjórða skiptið. Úr sófanum set ég sömu kröfu, að við komumst á EM. Ég ætla að vera með í því,“ segir Fanndís hlæjandi og bætir við:„Það er mjög skrýtið að vera á hliðarlínunni núna, en ég minnti þær á að njóta þess að spila þessa leiki. Ég held að íslenska þjóðin hefði mjög gott af því að við kæmumst á EM,“ segir Fanndís létt að lokum.

Fanndís Friðriksdóttir verður ekki með í leiknum gegn Slóvakíu í dag þar sem hún er barnshafandi.
Fréttablaðið/Ernir