Hinn 18 ára Alberto Nonino frá Ítalíu varð í síðasta sæti í sínum riðli í 400 metra hlaupi á HM unglinga í tugþraut sem nú fer fram í Cali í Kólumbíu. Nonino byrjaði reyndar hlaupið af krafti en hann var ekki í neinum undirbuxum og litli hershöfðinginn byrjaði að gægjast út - nánast út hlaupið.

Eins og sést á myndbandinu sem íþróttafréttamaðurinn David Sanchez de Castro deilir má sjá Nonino vera í vandræðum nánast frá fyrstu beygju.

„Typpið slapp úr búningnum og þurfti hann að halda á því í mark,“ segir fréttamaðurinn. Málið hefur vakið töluverða athygli en Nonino reynir að sjá björtu hliðarnar. Hann sagði á sínum Instagram reikningi að hann vissi vel af atvikinu og það væri óþarfi að senda sér það eða kommenta um það. Hann væri þakklátur vinum og ættingjum að komast í gegnum grín storminn.

Hann fór svo í viðtal á Ítalíu þar sem hann hjólaði aðeins í þá sem hafa verið að gera grín. „Það eru margir sem skrifa og segja að það sé ljótt að leggja í einelti en birta svo myndbandið. Fyrir annan en mig, sem er ekki mjög viðkvæmur ungur maður, hefði þetta geta endað öðruvísi.“ Hann varð að lokum í 15. sæti í keppninni.