Kylfingurinn Helga Kristín Gunnlaugsdóttir átti drauma frammistöðu á braut sjö á Nesvellinum í síðustu viku. Helga Kristín lék sjöundu brautina sem er par fimm hola á tveimur höggum sem þýðir að hún fékk albatros. Samkvæmt heimasíðu PGA eru líkurnar á því að ná slíku draumahöggi einn á móti sex milljón á meðan líkurnar á því að fara holu í höggi eru til að mynda einn á móti 12.000.

„Við vorum þarna þrjár saman í holli að spila í Meistaramótinu og það var þó nokkur meðvindur á sjöundu brautinni. Ég náði góðu teighöggi með drivernum og það voru 178 metrar í holuna eftir fyrsta höggið. Annað höggið sló ég með hálfvita og ég fann það strax að höggið var gott. Mér datt hins vegar ekki í hug að boltinn myndi enda í holunni, því það var svo langt í hana" segir Helga Kristín í samtali við Fréttablaðið um draumaholuna.

„Boltinn lenti fremst á flötinni og ég sá hann bara rúlla í átt að holunni. Svo bara skyndilega hvarf hann og ég áttaði mig ekki strax á því hvað hafði gerst. Ég var auðvitað mjög spennt að sjá hvort að hann hafði farið í holuna og við röltum hratt að holunni og kíktum ofan í. Þegar ég sá boltann þar varð ég mjög ánægð. Eftir að við kláruðum hringinn fékk ég svo létt spennufall. Þetta var frábær tilfinning og í raun draumi líkast," segir hún.

„Ég byrjaði að spila golf þegar ég var 12 ára gömul. Þá mætti ég á námskeið og vann keppni þar sem keppt var um að slá sem lengst. Ég náði þar að skáka strákunum og fékk medalíu og allt. Eftir það var ekki aftur snúið og ég keppti á mótaröðum í unglingaflokki. Síðan keppti ég nokkur ár á Eimskipsmótaröðinni í fullorðinsflokki áður en ég hætti í keppnisgolfi árið 2014. Ég spila aftur á móti golf reglulega yfir sumarið og golfbakterían hverfur ekkert úr blóðinu,"

„Pabbi og mamma eru félagar í Nesklúbbnum og bróðir minn var félagi þar áður en hann flutti til Svíþjóðar. Völlurinn úti á Seltjarnarnesi er því heimavöllur fjölskyldunnar og mér finnst mjög gaman að spila þann völl. Völlurinn á Hellu er minn uppálhalds völlur á landinu og mér finnst líka mjög gaman að spila þar. Þessi frábæra stund úti á Nesi hvetur mig enn frekar til þess að spila meira golf það sem eftir lifir sumars," segir Helga.