Kylfingurinn Ey­þór Harðar­son sló drauma­höggið á golf­vellinum í Vest­manna­eyjum fyrr í þessari viku en hann fór þá holu í höggi í þriðja skiptið á golf­ferli sínum. Þetta var hins vegar í fyrsta skipti sem hann gerði það í votta viður­vist þannig að um er að ræða mikinn á­fanga hjá honum. Höggið sló hann að Fjósa­klettinum sem er áttunda brautin á golf­vellinum sem er 236 metra löng par fjögur hola.

„Við vorum þarna að keppa við hvorn annan fé­lagarnir en Þor­steinn [Hall­gríms­son] var með tveggja högga for­ystu þegar við mættum á áttundu brautina. Ég ætlaði því að ná gæðum í höggið, komast ná­lægt holunni og freista þess að minnka for­skot hans á þessari holu. Ég finn það strax að höggið er gott og holan er í sjón­máli við upp­hafs­höggið þannig að við sáum boltann fara í holuna,“ segir Ey­þór í sam­tali við Frétta­blaðið um höggið.

„Það var mikill fögnuður sem braust út bæði hjá okkur fé­lögunum sem og þeim sem voru staddir þarna að spila golf á vellinum. Ég hafði tvisvar áður farið holu í höggi en í fyrra skiptið var ég 12 ára og enginn trúði okkur vinunum þegar við sögðum frá því á þeim tíma. Svo var ég einn að spila í annað skiptið og það er ekki það sama að gera það með þeim hætti eða á skjal­festan hátt eins og nú,“ segir hann enn fremur.

„Við náðum að halda sjó og kláruðum níundu holuna en eftir það fórum við inn í klúbb­húsið, skáluðum og fögnuðum þessum á­fanga. Það var glatt á hjalla og mikil sam­gleði. Fyrst og fremst var þetta mjög gleði­legt og meira að segja keppnis­maðurinn Þor­steinn sam­gladdist með mér. Þá er nú mikið sagt, en faðir hans, Hall­grímur Júlíus­son var sem betur fer með í hollinu og eykur það trúð­verðug­leikann á þessu af­reki,“ segir Ey­þór léttur.

„Nú tveimur dögum síðar er ég að komast niður úr skýjunum og það er mikill léttir að hafa náð að strika yfir þetta mark­mið á ferlinum. Það skemmir alls ekki fyrir að þetta hafi gerst á hinum glæsi­lega velli í Vest­manna­eyjum. Það var blíð­skapa­veður, sól og lygnt. Þetta var alveg frá­bært,“ segir Eyja­maðurinn.