Sundvöruframleiðandinn Speedo hefur ákveðið að slíta samstarfi sínu við rússneska sundkappann Evgeny Rylov eftir að Rylov mætti á fjöldafund skipulagðan af Vladimír Pútín á dögunum..
Speedo staðfesti í svari við fyrirspurn CNN að ákveðið hefði verið að slíta samstarfinu við Rylov sem vann til gullverðlauna í 100 metra og 200 metra baksundi á Ólympíuleikunum í Tókýó.
Með því vildi Speedo ítreka að fyrirtækið fordæmdi innrás Rússa í Úkraínu og standa með úkraínsku þjóðinni.
Tilefni fundarins var að fagna innrás rússneska hersins í Úkraínu og minnast þess að átta ár eru liðin frá innlimun Krímskagans.
Pútín hélt ræðu á fundinum og þá birtust átta afreksíþróttamenn á sviðinu á einum tímapunkti, meðal annars Rylov.
Alþjóðasundsambandið lýsti yfir vonbrigðum að sjá Rylov á sviðinu og sagði að von væri á rannsókn á málinu.