„Ég var með annað tilboð í höndunum um að taka við öðru landsliði þar sem markmiðið var að fara í uppbyggingu til framtíðar. Þegar ég kom til baka til Berlínar og var á leiðinni að bera stafstilboðið undir konuna mína hafði Uwe Schen­ker [forseti þýska handboltasambandsins] samband við mig og sagði að hann vildi ræða við mig. Þá grunaði mig að það ætti að bjóða mér starfið. Að þjálfa þýska karlalandsliðið í handbolta hefur verið draumur hjá mér í þó nokkurn tíma og það var aldrei spurning um að hafna hinu tilboðinu og taka við þessu starfi þegar mér bauðst það," segir Alfreð Gíslason sem í gær var ráðinn þjálfari þýska liðsins.

„Mér var boðið starfið áður en Dagur [Sigurðsson] tók við starfinu á sínum tíma en þá fannst mér ég enn hafa kraft til þess að sinna starfi þjálfara hjá félagsliði. Það var ekki rétti tímapunkturinn annað en núna. Ég var ekki með það í huga á þessari stundu að mér yrði boðið að taka við þýska liðinu þar sem ég hafði ekki verið í neinum samskiptum við neinn hjá þýska handboltasambandinu áður en Schenker hringdi í mig. Ég hafði hafnað bæði félagsliðum og landsliðum síðustu vikurnar þar sem ég vildi bíða og sjá hvað væri í boði eftir Evrópumótið," segir Alfreð á blaðamannafundinum í dag.

„Eftir 22 ára starf í þýsku efstu deildinni var ég orðinn þreyttur á því álagi sem fylgir því að starfa þar. Ég sagði á sínum tíma að ég vildi taka ársfrí og eftir það væri ég til í að taka við landsliði í kjölfarið á því að ég væri búinn að hlaða batteríin. Ef ég á að segja eins og er bjóst ég ekki við því að vera kominn í starf fjórum mánuðum eftir að ég hætti störfum hjá Kiel. Að sama skapi fann ég það fljótlega að handboltabakterían fer ekki svo glatt úr líkamanum hjá mér," segir þessi sigursæli þjálfari.

„Það er alltaf stefnan að spila til verðlauna á stórmótum hjá Þýskalandi. Ég tel að þýska liðið sé hins vegar eitt af þremur sterkustu landsliðum heims eins og sakir standa. Ef okkur tekst að koma okkur inn á Ólympíuleikana sem er að sjálfsögðu markmiðið sýnum við aftur á móti að við séum í fremstu röð. Ég er mjög spenntur fyrir þvi að byrja að vinna og komast aftur í hringiðu handboltans," segir hann en Þjóðverjar eru í riðli með Slóven­íu, Svíþjóð og Als­ír í undankeppni Ólympíuleikanna sem fram fer í mars næstkomandi.