Ísland tapaði með 24 stiga mun 109-85 í lokaleik Íslands í H-riðli undankeppni EuroBasket og er því úr leik í þessari undankeppni.

Roberto Kovac sem samdi á dögunum við ÍR reyndist Íslendingum afar erfiður, hann skilaði 29 stigum og setti niður ótrúleg þriggja stiga skot þegar Sviss þurfti á því að halda.

Staða Íslands var afar vænleg fyrir leikinn í kvöld, Íslandi dugaði að tapa með undir tuttugu stigum en svissneska liðið valtaði yfir Ísland í seinni hálfleik.

Ísland byrjaði leikinn af krafti og var með frumkvæðið framan af. Sóknarleikurinn gekk vel og vörnin náði að loka á stærstu stjörnur Sviss.

Íslenska liðið leiddi með fjórum stigum í upphafi annars leikhluta en með 18-4 kafla náði Sviss forskotinu og leiddi með sjö stigum í hálfleik.

Í seinni hálfleik varð sóknarleikur Íslands enn stirðari og átti íslenska liðið í stökustu vandræðum með að skapa sér skotfæri.

Sviss náði að þvinga Ísland í erfið skot á meðan þeir fóru í gegnum vörn Íslands að vild. Þegar skotin geiguðu var Clint Capela Íslendingum erfiður undir körfunni og tók hann fjölmörg sóknarfráköst.

Munurinn var ellefu stig eftir þrjá leikhluta en í fjórða leikhluta keyrði Sviss aftur yfir Ísland og náði 23 stiga forskoti.

Íslandi tókst að stöðva blæðinguna þar þegar betra flæði komst í sóknarleikinn en slök vörn varð Íslandi að lokum að falli.