Ísland laut í lægra haldi, 84-69, þegar liðið fékk Búlgaríu í heimsókn í fyrstu umferð í undankeppni Evrópumótsins, EuroBasket 2021, í Laugardalshöllina í kvöld.

Íslenska liðið fór illa af ráði sínu í fyrri hálfleik en staðan var 42-28 Búlgaríu í vil. Leikmönnum Íslands voru mislagðar hendur og áhlaup þeirra voru ekki nógu kraftmikil og löng.

Leikmenn búlgarska liðsins náðu að halda Helenu Sverrisdóttur í skefjum í fyrri háfleik en einu tvö stigin hennar í fyrri hálfleiknum komu af vítalínunni.

Ísland hóf seinni hálfleikinn af krafti og virtist ætla að hleypa spennu í lokakafla leiksins. Þá tóku Búlgarar við sér á nýjan leik og fóru að lokum með 15 stiga sigur af hólmi.

Hildur Björg Kjartansdóttir var stigahæst hjá íslenska liðinu með 15 stig en Helena kom næst með 14 stig.

Næsti leikur Íslands í undankeppninni er á móti Grikklandi ytra á sunnudagskvöldið. Auk þeirra er Slóvakía með þeim í riðli.