Enski boltinn

Slakir United-menn færðu Man City enska titilinn

Manchester City er enskur meistari í fimmta sinn í sögu félagsins eftir að Manchester United mistókst að vinna West Brom um helgina. Eftir erfiða viku þar sem liðið tapaði þremur leikjum í röð geta City-menn tekið gleði sína á ný.

Þetta er góður efniviður, Guardiola, De Bruyne og Jesus ganga af velli á Wembley um helgina. Fréttablaðið/Getty

Stuðningsmenn Manchester City þurftu ekki að lifa við svekkelsi lengi eftir að hafa tapað þremur leikjum í röð og fallið úr leik í Meistaradeildinni í síðustu viku.

Félaginu mistókst að tryggja sér enska meistaratitilinn á heimavelli gegn erkifjendunum á dögunum en það reyndist aðeins töf á því óumflýjanlega því City-menn eru meistarar aðeins viku síðar.

Áttu þeir eflaust von á því að sigur  gegn Swansea um næstu helgi yrði það sem myndi koma titlinum á Etihad-völlinn en ekki að United myndi misstíga sig gegn lélegasta liði deildarinnar á heimavelli eins og reyndist í gær.

Sluppu  við vafasamt met

Manchester City fékk krefjandi verkefni upp í hendurnar strax eftir að hafa dottið út úr Meistaradeild Evrópu. Eftir að hafa aðeins tapað tveimur leikjum á átta mánuðum komu þrír tapleikir í röð. Tveir þeirra gegn Liverpool og einn gegn Manchester United.

Andstæðingurinn var Tottenham sem hafði unnið síðustu tvo heimaleiki gegn City og var það raunhæfur möguleiki að City myndi tapa fjórum í röð. Hefði það verið í fyrsta sinn á ferli Pep Guardiola sem lið undir hans stjórn tapar fjórum leikjum í röð.

Allar efasemdir virtust kveðnar niður snemma leiks, mörk frá Gabriel Jesus og Ilkay Gundogan komu City í góða stöðu og fékk Raheem Sterling enn einn leikinn fjölda færa til að klára einvígið en rangar ákvarðanir komu honum í koll eins og í fyrri leikjunum.

Christian Eriksen minnkaði muninn en Raheem Sterling bætti við marki fyrir gestina um miðbik seinni hálfleiks og gerði út um leikinn og kom um leið í veg fyrir að City myndi tapa fjórum leikjum í röð. Metið stendur því enn hjá Guardiola sem hefur aldrei tapað fjórum leikum í röð.

Önnur met í augsýn

Nú er ljóst að Manchester City vinnur tvöfalt á öðru tímabili Guardiola með félagið. Enski deildarbikarinn er skemmtileg viðbót en þeim spænska tókst að landa öðrum af stóru titlunum sem í boði eru með enska meistaratitlinum.

Guardiola var fenginn til City til að skapa sigurhefð og skapa lið sem gæti gert atlögu að Meistaradeild Evrópu. Hefur honum mistekist það í tvígang og eftir að hafa óvænt fallið úr leik í enska bikarnum fyrr í vetur er að litlu að keppa næstu vikurnar fyrir ensku meistarana.

City á fimm leiki eftir og eru nokkur met í ensku úrvalsdeildinni innan seilingar. Þarf liðið að vinna þrjá leiki af fimm til að bæta stigamet deildarinnar í 38 leikja deild, met sem Chelsea setti undir stjórn Jose Mourinho árið 2005.

Chelsea á einnig metið yfir flest mörk á heilu tímabili þegar liðsmenn Chelsea skoruðu 103 mörk er þeir unnu enska meistaratitilinn 2010. Vantar Manchester City ellefu mörk í fimm leikjum til að bæta met Chelsea en nýkrýndu Englands-meistararnir eru búnir að skora að meðaltali tæplega þrjú mörk í leik.

Þá getur Manchester City slegið aðeins ársgamalt met Chelsea sem fráfarandi enskir meistarar settu undir stjórn Antonio Conte í fyrra. Chelsea setti met er félagið vann 30 leiki en City hefur unnið 28 leiki þegar fimm umferðir eru eftir.

Komnir til að vera

Það skyldi engan undra að Man­chester City verði sterkara á næsta tímabili. Kjarni liðsins er á besta aldri og fær Guardiola eflaust nægan pening til að reyna að koma liðinu yfir þröskuldinn í Meistaradeild Evrópu.

Gera atlögu að eina titlinum sem Manchester City vantar í titlaskápinn og titlinum sem Guardiola var ráðinn til að ná í.

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Enski boltinn

City tapaði fyrsta æfingaleiknum

Enski boltinn

Son og Lamela framlengja við Tottenham

Enski boltinn

Liver­pool búið að ganga frá kaupum á Alis­son

Auglýsing

Nýjast

Hörður lék sinn fyrsta leik fyrir CSKA í dag

Besti hringur Tigers á risamóti síðan 2011

Þrír jafnir á toppnum á Opna breska

HK aftur á toppinn eftir sigur á Grenivík

Berglind Björg skaut Blikum í bikarúrslit

María og Ingvar Íslandsmeistarar

Auglýsing