Karlalið Vals í handbolta tapaði í kvöld á útivelli gegn franska liðinu PAUC í Evrópudeildinni eftir jafnan leik framan af reyndist franska liðið sterkara og sigldi að lokum heim með þriggja marka sigur, 32-29.

Valsmenn byrjuðu leikinn betur en áttu síðan eftir að gera þó nokkuð marga feila í sóknarleik sínum fyrstu tíu mínúturnar. Hins vegar mætti Björgvin Páll Gústavsson inn af krafti í leikinn og varði alls 6 bolta á fyrstu tíu mínútum leiksins.

Valsmenn náðu því að takmarka skaðann af feilum sínum í sóknarleiknum og staðan því 4-5 fyrir Val þegar tíu mínútur voru liðnar.

Jafnræði var með liðunum næstu tíu mínúturnar en Frakkarnir náðu þó að bíta aðeins frá sér og snúa stöðunni sér í vil. Staðan 12-10 fyrir PAUC þegar að tuttugu mínútur voru liðnar.

Valsmenn létu hins vegar ekki deigann síga þrátt fyrir að hafa gengið í gegnum erfiðan kafla og lent undir. Strákarnir frá Hlíðarenda náðu aftur að snúa stöðunni sér í vil, Björgvin öflugur í markinu og markaskorun dreifð hjá liðinu.

Staðan var 14-15 fyrir Val þegar flautað var til hálfleiks.

Valsmenn mættu af sama krafti inn í síðari hálfleik og byrjuðu hann vel, vörn liðsins var að þvinga leikmenn PAUC í erfiðar stöður en án þess þó að nýta sér það til þess að breikka bilið milli liðanna í markaskorun. staðan 20-21 fyrir Val þegar fjörutíu mínútur voru liðnar af leiknum.

Það var þó á þessum tímapunkti sem Valsmenn buðu upp á fjögurra marka sveiflu á þremur mínútum með tveimur mörkum frá Stiven Tobar, einu frá Finni Inga Stefánssyni og einu frá Róberti Aroni Hostert. Staðan því 20-24 og rúmur stundarfjórðungur eftir.

Hins vegar náðu heimamenn í PAUC að svara fyrir sig á þessum tímapunkti í leiknum og jafna leikinn á nýjan leik eftir að hafa verið fjórum mörkum undir. Um æsispennandi leik var að ræða og Valsmenn einu marki yfir, 26-27 þegar tíu mínútur lifðu leiks.

Snorri Steinn, þjálfari Valsmanna tók leikhlé þegar að fimm mínútur lifðu leiks, bað leikmenn sína um að róa sig því að á þessum tímapunkti hafði Valsmönnum ekki gengið nægilega vel fram á við og á endanum lent einu marki undir.

Leikmenn PAUC reyndust hins vegar sterkari aðilinn á lokametrunum og sigldu að lokum heim þriggja marka sigri, 32-29.

Úrslit kvöldsins þýða að Valur situr í þriðja sæti síns riðils með fjögur stig eftir fjórar umferðir og tveimur stigum á eftir toppliði Flensburg og PAUC sem situr í 2. sæti.

Markahæstir í liði Vals í kvöld voru Arnór Snær Óskarsson og Stiven Tober Valencia með 6 mörk.

Þá varði Björgvin Páll 12 skot í marki Vals.