Skýrslan sem Grétar Rafn Steinsson skilaði til KSÍ í júlí varð ekki opinber fyrr en Fréttablaðið hóf að birta hana á aðfangadag. Æðstu stjórnendur KSÍ höfðu setið með skýrsluna á borði sínu en ákveðið að ekki þyrfti að hafa neinar hraðar hendur í að vinna úr henni og taka einhver atriði til greina og bæta þau.

Allt fór á fulla ferð eftir birtingu Fréttablaðsins og sambandið hóf að senda skýrsluna út á aðildarfélögin.

Fimm mánuðum eftir að Grétar Rafn skilaði skýrslu sinni til KSÍ hafði engin almennileg vinna farið fram, stjórn KSÍ hafði að stærstum hluta ekki hugmynd um skýrsluna og það hafði starfsfólk sambandsins ekki heldur.

Ljóst er að þarna brugðust þeir sem ráða hjá KSÍ, að sitja með skýrsluna óhreyfða á borði sínu í fleiri mánuði er merki um slæleg vinnubrögð. Gera þarf betur í málefnum sem skipta fótboltann í landinu máli.

Undanfarið ár hefur sambandið haft allan fókus á málefnin utan vallar, tekið var á þeim vandamálum sem höfðu komið upp og farið var að vinna úr þeim. Knattspyrnuhreyfingin er hins vegar farin að kalla eftir því að sambandið setji meiri einbeitingu á stöðuna innan vallar.

Karlalandsliðið var í frjálsu falli í tólf mánuði en hefur sýnt örlitlar bætingar, kvennalandsliðið sýnir engar bætingar og staðan í íslenskum fótbolta er almennt nokkuð slæm.

Skýrsla Grétars ætti að vera gott tæki fyrir sambandið og hreyfinguna til að ræða málin og setja meiri einbeitingu á málin innan vallar. Ekki að stinga hausnum ofan í sandinn og vona að skýrslan gleymist.

Það er fullt af punktum í skýrslu Grétars þar sem bent er á hluti sem þarf að bæta og á að bæta. Eitt af því er að ráða inn fleira starfsfólk hjá KSÍ, til þess að það verði hægt þarf sambandið að skoða hvernig það fer með fjármuni sína.

Eitt af því sem hægt væri að byrja á er að láta félög landsins greiða fyrir dómarakostnað. Í afreksþjálfun eins og sambandið á að standa fyrir heldur það engu vatni að sambandið borgi fyrir dómarakostnað í neðstu deildum fótboltans hér á landi. Dómarakostnaður var samkvæmt heimildum nálægt 300 milljónum króna á síðasta ári.

Taka þarf þá umræðu hvort ekki eigi að setja þátttökugjald á öll félög í deildum hér landi, 2 milljónir króna á lið í efstu deildum og svo lækkar upphæðin eftir því sem neðar er farið gæti virkað. Þá væru til fjármunir til að nýta í faglegt starf KSÍ og auka fjölda starfsmanna KSÍ sem eru sárafáir í öllum samanburði við önnur lönd.

Þetta yrði líka til þess að bumbuboltafélög færu frekar í utandeildir þar sem þau eiga frekar heima, eðlilega sitja þau sem fastast í keppnum KSÍ þegar kostnaðurinn er nánast enginn.

Sá punktur Grétars að á Íslandi sé byrjað á röngum enda stuðaði marga. Stærstum hluta tekna félagsliða er varið í laun í stað þess að byggja til framtíðar, við borgum atvinnumannalaun í áhugamanna­umhverfi eins og Grétar orðaði það. Þessi staðhæfing og í raun staðreynd frá jafn sterki rödd og Grétari er nauðsynleg fyrir íslenskan fótbolta.

Launaskrið hefur verið í fótboltanum hér á landi undanfarin ár en gæðin hafa síst orðið meiri. Spurning er hvort hægt sé að nota fjármunina betur því mörg lið í Bestu deild ráða varla við gerða samninga, borga seint og illa og eru í tómri klípu.

Það á ekki að þurfa að vera óþægilegt að ræða hlutina, sumir kunna að hafa aðra skoðun en Grétar en aldrei í lífinu hefur orðið framþróun í neinu nema að umræða fari fram. Það hefur oftar en ekki verið einn stærsti galli íþróttahreyfingarinnar að umræðan um málin, stöðuna og hvort vegferðin sé rétt eða röng fer sjaldan fram.

Fari hún fram er það iðulega ekki á opnum vettvangi.

Það er vonandi að sambandið og hreyfingin nýti vinnu Grétars, það er ekki tilviljun að hann hefur starfað hjá Tottenham og Everton á undanförnum árum og fleiri stórlið í Evrópu hafa sóst og sækjast eftir kröftum hans.

Hann hefur þekkingu á því sem hann skrifar um og það er sjálfsögð krafa að KSÍ nýti þá vinnu betur sem það sjálft réð Grétar til að vinna en gert hefur verið undanfarna mánuði.