Sláandi munur er á heildarlaunum þjálfara kvenna hjá Stjörnunni. Munurinn er fjórfaldur í fótboltanum en handboltinn slær í helmingsmun. Ársskýrsla félagsins var lögð fram á stjórnarfundi á miðvikudag þar sem félagið sundurliðaði deildir og kyn en leyndarhyggjan um peninga í íþróttamálum hefur verið gífurleg undanfarið af einhverjum sökum.

Stjarnan greiddi leikmönnum sínum í Pepsi Max deild karla tæpar 84 milljónir króna í laun og verktakagreiðslur fyrir síðasta sumar. Heildarkostnaður við leikmenn liðsins nam alls 95 milljónum. Þá taldi kostnaður vegna þjálfara liðsins um 40 milljónum króna. Meistaraflokkur karla tapaði um 16 milljónum króna á síðasta ári.

Konurnar í meistaraflokki Stjörnunnar fá varla brotabrot af því sem karlarnir fá. Heildarkostnaður við meistaraflokk kvenna nam 13 milljónum króna og greiddi félagið leikmönnum sínum 5,5 milljónir í laun og dró launakostnaðinn saman um sjö milljónir. Þá var þjálfarakostnaðurinn rétt rúmar 11 milljónir. Konurnar voru réttum megin við núllið annað árið í röð.

Um 10 milljón króna hagnaður var af barna- og unglingastarfi Stjörnunnar og borga börnin því nánast upp tap Meistaraflokks karla.

Í skýrslu sem Stjarnan skilaði til KSÍ vegna leyfiskerfisins sagði að knattspyrnudeildin hefði skilað fimm milljóna króna tapi.

Konurnar skila hagnaði

Þegar litið er á handboltadeildina fengu leikmenn karlamegin 14,6 milljónir í laun og verktakagreiðslur á síðasta ári og þjálfarar 10 milljónir. Karladeildin tapaði 522 þúsundum. Konurnar fengu 8,7 milljónir í laun og þjálfarar um sex milljónir. Kvennaboltinn skilaði 1,6 milljónum í hagnað.

Körfuboltadeildin dró kvennaliðið úr keppni á síðasta ári en karlamegin var kostnaður sjö milljónir á þjálfara og heildarkostnaður vegna leikmanna nam 31 milljón, þar af voru þrjár milljónir í húsnæðiskostnað fyrir erlenda leikmenn. Launakostnaður fór úr 16 milljónum í 22,5 milljónir milli ára. Þjálfarar í fimleikum fá meira fyrir að þjálfa konurnar en karlana.

Leikmenn hjá Stjörnunni karlamegin í fótbolta hafa það gott en þeir fengu 84 milljónir í laun á síðasta ári. Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Eiga 30 milljónir

Alls greiddi Stjarnan í heild 137 milljónir í laun til leikmanna í félaginu og minnkaði launakostnaður milli ára um sjö milljónir króna. Þá fékk félagið hartnær 93 milljónir í mótatekjur, þar af 82 sem runnu gegnum meistaraflokk karla í fótbolta fyrir að vera í Evrópukeppni. Stjarnan tapaði um níu milljónum króna á síðasta rekstrarári en eigið fé var 29,2 milljónir króna samkvæmt efnahagsreikningnum. Á fundinum var Sigurgeir Guðlaugsson kosinn formaður félagsins.

Sláandi að sjá muninn

Harpa Þorsteinsdóttir, fyrrverandi leikmaður félagsins og íslenska landsliðsins og núverandi bæjarfulltrúi í Garðabæ, hafði ekki legið yfir reikningnum þegar Fréttablaðið náði í skottið á henni. „Í fljótu bragði þá ber að hrósa fyrir þessa ársskýrslu því hún sundurliðar allar deildir og konur og karla. Önnur félög mættu taka þetta til fyrirmyndar.

Auðvitað er sláandi að sjá svona svart á hvítu þennan launamun og einnig launakostnað í þjálfaramálum. Það er munur á rekstri deildanna og eru kannski eðlilegar skýringar á því að einhverju leyti, en það er samt þessi munur og viðhorfið gagnvart kvennaboltanum sem skiptir miklu máli í öllu starfinu. Ég tel að svona gagnsæi sé gott og jákvætt að fólk spái aðeins í þessu þegar það horfir á stóru myndina.“