Ólafur Kristjánsson, yfirmaður knattspyrnumála hjá Breiðablik, settist í settið í Íþróttavikunni með Benna Bó sem sýnd er á föstudögum á Hringbraut. Hann sat þar með Herði Snævari Jónssyni, íþróttastjóra Torgs og fóru yfir landsleikinn gegn Venesúela sem Ísland vann 1-0.

Hann skaut aðeins á blaðamenn og aðra sem fjalla um fótboltann. „Það hefur verið hrópað og kallað ansi mikið. En við þekkjum ekki forsendurnar, hvað sé lagt upp með og hvernig á að spila og hvernig viljum við spila. Hvert er planið. Þess vegna verður þessi gagnrýni ekki alltaf byggð á... kannski hefur skapast einhver núningur að menn eru að geta sig til en við þurfum að vera skýrari finnst mér.“

Hann tók dæmi um U-21 árs landsliðið um hvað væri skýrt en Ólafur hefur fylgst vel með þeirra undankeppni. „Mér finnst að þar er búið að búa til lið sem er með nokkuð skýr einkenni. Þegar maður horfir á þá frá einum leik til annars þá getur maður séð sömu hlutina aftur og aftur og þykist skynja hvaða gildi eru í gangi. Það er það sem ég vildi sjá hjá A-landsliðinu og ég efast ekki um að það sé verið að reyna að ná því. Svo er þessi vegur að því oft hindrunum stráður.“