Arsenal staðfesti í dag að Norðmaðurinn Martin Ödegaard myndi ganga til liðs við félagið á hálfs árs lánssamning frá Real Madrid.

Ödegaard var á sínum tíma einn eftirsóttasti táningur heims sem sextán ára undrabarn. Öll stærstu lið Evrópu voru orðuð við táninginn frá Drammen.

Hann steig fyrstu skref sín á meistaraflokksferlinum fimmtán ára gamall og vann Real Madrid kapphlaupið um norska undrabarnið nokkrum mánuðum síðar.

Undanfarin ár hefur Norðmaðurinn farið á lán til Hollands og á síðasta ári til Real Sociedad á Spáni ásamt því að leika 25 leiki fyrir norska landsliðið.

Vonir stóðu til að Ödegaard tækist að brjóta sér leið inn í lið Real Madrid á þessu ári en honum hefur ekki tekist að heilla Zinedine Zidane. Alls kom hann við sögu í átta leikjum og óskaði því eftir því að yfirgefa félagið.