Fresta þurfti leik Arsenal og Manchester City í kvöld eftir að Skytturnar tilkynntu að leikmenn félagsins væru komnir í sóttkví af ótta við að þeir væru með kórónaveiruna.

Í gær kom það í ljós að eigandi Olympiacos hefði greinst með kórónaveiruna, stuttu eftir að gríska félagið vann 2-1 sigur á Arsenal í Evrópudeildinni á Emirates-vellinum.

Samkvæmt tilkynningu sem Arsenal sendi frá sér heilsuðu nokkrir leikmenn félagsins upp á Evangelos Marinakis, eiganda gríska félagsins og Nottingham Forest eftir leikinn.

Arsenal fékk því að fresta leiknum í bili þangað til að fullvíst sé að leikmenn liðsins og þjálfarar sem komu nálægt Marinakis séu ekki smitaðir.

Þetta gerir það að verkum að Liverpool getur ekki hampað enska meistaratitlinum fyrr en á mánudaginn í fyrsta lagi, takist Burnley að vinna Manchester City um helgina.