Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari Íslands segir að það muni aldrei ganga til lengdar að framherjinn Berglind Björg Þorvaldsdóttir, leikmaður Paris Saint-Germain í Frakklandi, sé ekkert að spila hjá félaginu.
Berglind Björg gekk til liðs við franska liðið á síðasta ári en tækifærin þar hafa verið af afar skornum skammti undanfarið.
Leikmaðurinn hefur í raun verið í frystikistunni hjá landsliðinu en er þrátt fyrir það í landsliðshópi Íslands fyrir komandi verkefni liðsins á æfingamótinu Pinatar Cup á Spáni.
Þorsteinn segir stöðu Berglindar ekki góða.
„Það er alveg ljóst og gengur ekki endalaust að leikmaður sé ekkert að spila,“ segir Þorsteinn í samtali við Fréttablaðið.
Sóknarmaðurinn Ólöf Sigríður Kristinsdóttir, leikmaður Þróttar Reykjavíkur er ný í landsliðshópi Íslands fyrir Pinatar Cup og Þorsteinn segir það að hluta til tengjast stöðu Berglindar hjá PSG.
„Partur af því að ég vel Ólöfu Sigríði er sú staðreynd að við þurfum að horfa fram í tímann með það að hugsanlega ef Berglind spilar ekki neitt næstu 12 mánuði þá mun það aldrei ganga.