Íslenska kvennalandsliðið hefur leik á ný í undankeppni EM í kvöld þegar Lettar heimsækja Laugardalsvöll, tíu mánuðum eftir að liðin mættust síðast og Ísland vann öruggan 6-0 sigur ytra. Ísland má ekki misstíga sig í kvöld því hvert stig skiptir máli í baráttunni við Svía, bronsliðið frá síðasta HM um toppsæti riðilsins. Þá getur stig skilið að hvort að Ísland færi beint inn á EM eða í umspil, ef annað sæti reynist veruleikinn þegar undankeppninni lýkur í byrjun desember.

Ísland er með fullt hús stiga eftir þrjá leiki í F-riðli og markatöluna 11-1. Búast má við að Lettarnir reyni að tefja í von um að drepa flæði leiksins og stigið varið fram í rauðan dauðann en raunveruleikinn er að þetta er skyldusigur fyrir íslenska liðið ef þær ætla sér að gera atlögu að sæti á EM.

„Þetta verður þolinmæðisvinna og það skiptir mestu máli að halda áætlun og reyna að skora mark snemma til að fá þær framar á völlinn,“ segir Sif Atladóttir, miðvörður landsliðsins, um leikinn en hún er ekki með hópnum enda á endasprett meðgöngu þessa dagana.

„Við þurfum að finna plássið á bak við varnarblokkirnar þeirra. Við erum með leikmenn sem geta klárað þetta á nokkra mismunandi vegu en það skiptir öllu að sýna þolinmæði.“

Þegar Ísland mætti Lettlandi síðasta haust náði Ísland að brjóta ísinn snemma og var þá ljóst í hvað stefndi. Stelpurnar okkar létu slakar vallaraðstæður á Daugava-vellinum í Lettlandi ekki fara í taugarnar á sér heldur gengu frá leiknum á fimmtíu mínútum með fjórum mörkum. Undir lokin náði Margrét Lára Viðarsdóttir að kóróna sigurinn með sjötta marki Íslands, sem reyndist síðasta mark hennar á knattspyrnuferlinum, en hún lagði skóna á hilluna stuttu síðar.

Líkt og Sif er Fanndís Friðriksdóttir sem skoraði tvívegis fyrir Ísland í Lettlandi fjarverandi vegna óléttu. Líklegt er að Anna Björk Kristjánsdóttir taki stöðu Sifjar við hlið Glódísar Perlu Viggósdóttur í vörn Íslands, en stærra spurningarmerki er hver tekur stöðu Fanndísar. Agla María Albertsdóttir kemur til greina en þjálfarateymið gæti einnig nýtt tækifærið til að gefa Sveindísi Jane Jónsdóttur fyrsta leik sinn í íslensku treyjunni eftir frábæra frammistöðu með liði Breiðabliks undanfarnar vikur.

Stærra prófið verður í næstu viku þegar hið ógnarsterka lið Svía kemur í heimsókn. Þar fær Ísland færi á að gera atlögu að toppsæti riðilsins og beinum þátttökurétti á fjórða Evrópumótinu í röð. Leikurinn gegn Lettum gæti því verið fínn leikur fyrir Stelpurnar okkar til að skerpa á nokkrum hlutum eftir langa fjarveru.

„Fólk reiknar kannski með því að þetta sé hálfgerður æfingaleikur í kvöld en stelpurnar hlusta ekkert á það. Þær vita að við þurfum fyrst og fremst að vinna leikinn. Það er erfitt að bera þessa leiki saman, það verður hlutverk okkar að stjórna leiknum í kvöld en gegn Svíum verða það þær sem stýra umferðinni. Þetta eru tveir mjög ólíkir leikir og það er er þvi erfitt að fara í einhverjar leikir tilraunir. Fyrst og fremst er gott fyrir liðið að fá keppnisleik í kvöld fyrir leikinn gegn Svíum og vonandi ná að stilla saman strengi og finna taktinn aftur í alvöru keppnisleik.“