Ísland leikur í dag við Lettland í þriðja umferð í undankeppni EM 2021 í knattspyrnu kvenna en spilað verður á Daugava Stadium í Liepaja og hefst leikurinn klukkan 17.00 að íslenskum tíma.

Fyrir umferðina eru Ísland og Svíþjóð jöfn á toppi riðilsins með fullt hús stiga eftir tvo leiki. Ísland hefur lagt Ungverjaland og Slóvakíu að velli á meðan Svíar hafa haft betur gegn Lettlandi og Ungverjalandi.

Vallaraðstæður voru ekkert til þess að hrópa húrra fyrir í gær en völlurinn virkaði af myndum blautur og laus í sér. Þá voru moldarblettir á víð og dreif um völlinn.

Allir leikmenn íslenska liðsins skiluðu sér heilu og höldnu úr tapinu gegn Frakklandi í vináttulandsleik liðanna sem fram fór á föstudagskvöldið síðastliðið.

Dagný Brynjarsdóttir er nefbrotinn en lék gegn Frökkum með grímu sem truflaði hana í leiknum en sjúkraþjálfarateymi liðsins hefur freistað þess að laga grímuna til þess að hún verði ekki til trafala.

Mesta spurningamerkið varðandi hvernig Jón Þór Hauksson og Ian David Jeffs munu stilla upp byrjunarliði íslenska liðsins í dag er hverjar munu skipa kantstöðurnar. Agla María Albertsdóttir, Fanndís Friðriksdóttir, Hlín Eiríksdóttir og Svava Rós Guðmundsdóttir skiptu kantstöðunum á milli sín í fyrstu tveimur leikjunum.

Líklegt byrjunarlið Íslands í leiknum er svona: Sandra Sigurðardóttir - Hallbera Guðný Gísladóttir, Glódís Perla Viggósdóttir, Sif Atladóttir, Ingibjörg Sigurðardóttir - Sara Björk Gunnarsdóttir, Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir, Dagný Brynjarsdóttir - Fanndís Friðriksdóttir, Elín Metta Jensen, Hlín Eiríksdóttir.