Gylfi Þór Sigurðsson, leikmaður íslenska landsliðsins og Everton er í úrvalsliði SkySports það sem  af er þessa tímabils sem var birt í dag.

Farið er eftir sérstakri tölfræði þegar kemur að því að velja úrvalsliðið og er Hafnfirðingurinn eini fulltrúi Everton í liðinu.

Hafnfirðingurinn hefur komið að fimmtán mörkum á tímabilinu, skorað tólf og lagt upp þrjú. Þrátt fyrir að það séu sjö leikir eftir er þetta þegar orðið besta tímabil Gylfa í úrvalsdeildinni þegar kemur að markaskorun.

Nágrannar Everton í Liverpool eiga flesta fulltrúa í liðinu, alls fjóra í Virgil van Dijk, Alisson Becker, Andy Robertson og Mohamed Salah.

Manchester City sem er að berjast við Liverpool um meistaratitilinn er með tvo fulltrúa, Sergio Aguero og Raheem Sterling og Wolves er einnig með tvo fulltrúa, Willy Boly og Matt Doherty.

Eden Hazard er eini fulltrúi Chelsea og Paul Pogba frá Manchester United en ekkert pláss er fyrir leikmenn frá Tottenham né Arsenal.