Samkvæmt heimildum SkySports leiða Manchester United og Liverpool viðræður stærstu liða Evrópu um sérstaka Ofurdeild sem myndi líklegast gera út um Meistaradeild Evrópu.

Þessar fréttir berast nokkrum dögum eftir að tillögu þessarra liða um breytingar á ensku úrvalsdeildinni var hafnað.

Tillagan er unnin í samstarfi við FIFA sem hefur áður reynt að létta undir slíkum viðræðum í von um að ná betur yfirstjórn yfir stærstu félagsliðakeppi heims sem er í dag Meistaradeildin

Félögin eru búin að fá samþykki fyrir sex milljarða dollara láni frá fjárfestingabankanum Morgan Stanley sem stofnfé.

Samkvæmt heimildum Sky verða átján af stærstu liðum Evrópu sem fá þátttökurétt og er stofnaðilum tryggður þátttökuréttur fyrstu tuttugu ár keppninnar.

Hugmyndin er að liðin mætist tvisvar á ári og að félögin sem öðlist þátttökurétt fái mun hærri upphæðir en nú þekkist í Meistaradeild Evrópu.

Þá myndu félögin fá væna summu fyrir að taka þátt í stofnun deildarinnar.

Talið er að fimm félög frá Englandi myndu fá þátttökurétt og þá hafa Atletico Madrid, Bayern Munchen, Barcelona, Juventus, PSG, Real Madrid verið nefnd til sögunnar.