Nettó skuldir Manchester United jukust mikið milli ársfjórðunga. Sjónvarpstekjur drógust saman sem og heildartekjur. Ársfjórðungurinn sem um er að ræða nær til 31. desember og eru því kaupin á Bruno Fernandes ekki inni í þessum tölum.

Þó nettóskuldir félagsins séu gríðarlegar, um 391 milljón punda eða 64 milljarðar, er engan bilbug á félaginu að finna. Félagið á enn nokkuð djúpa vasa til að seilast í eftir nýjum leikmönnum eða um 100 milljónir punda í beinhörðum peningum, sem eru um 16 milljarðar króna, og framkvæmdastjórinn, Ed Woodward, lofaði í yfirlýsingu að það kæmu inn leikmenn í næsta félagaskiptaglugga. Trúlega þarf félagið þó að selja leikmenn áður en aðrir verða keyptir því í yfirlýsingunni kom fram að heimsklassa leikmenn myndu bætast við og þeir kosta skildinginn. Áherslan væri lögð á færri en betri leikmenn frekar en fleiri. Hann bætti við að félagið væri að stefna í rétta átt.

Old Trafford, heimavöllur Manchester United.

Manchester United var í þriðja sæti á síðasta peningalista Deloitte sem birtur var í janúar fyrir tímabilið 2017-2018. Þá kom fram að félagið ætti á hættu að missa af toppsæti ensku liðanna í fyrsta sinn. Félagið skilaði heildartekjum upp á 627 milljónir punda, jafnvirði um 104 milljarða en í nýjasta reikningi félagsins er gert ráð fyrir tekjum upp á 560-580 milljónir punda fyrir árið 2020, eða um 93 milljarða. Grannarnir í City sækja hratt að toppsætinu sem og Liverpool. Þess má geta að spænsku risarnir í Real Madrid og Barcelona eru í efstu tveimur sætum peningalistans. Yfirvofandi bann City í Meistaradeildinni var ekki tekið inn í reikninginn.

Auglýsingatekjur halda þó áfram að vaxa innan Manchester United og jukust þær um sjö prósent og eru nú 70,6 milljónir punda jafnvirði 11,7 milljarða. Þá minnkaði launakostnaður um sjö milljónir punda en liðið greiðir um 71 milljón punda í laun. Er það vegna skorts á Meistaradeildarbónusum en liðið spilar nú í Evrópudeildinni sem útskýrir þessa lækkun.

„Við ætlum okkur að enda vel í deildinni, Evrópudeildinni og í FA-bikarnum nú þegar síðasti þriðjungur er hafinn. Grunnurinn er til staðar til að ná árangri til lengri tíma og við erum að vinna í áætlun og fótboltahugmyndafræði okkar með Ole,“ bætti Woodward við og átti þar við knattspyrnustjórann Ole Gunnar Solskjær.