Heildarlaunakostnaður íþróttafélaganna í Reykjavík hefur vaxið gríðarlega síðan árið 2014, eða um helming. Laun og verktakagreiðslur hækkuðu um meira en hálfan milljarð frá 2014-2018. Í fyrra var stuðningur borgarinnar við þátttakendur í íþróttum um 508 milljónir króna en beinn stuðningur við íþróttafélögin, ÍBR og viðburði á vegum ÍBR var um 2,6 milljarðar. KR trónir á toppnum í skuldastöðu félaganna í borginni en árið 2018 skuldaði félagið 200 milljónir.

Þetta má sjá í skýrslu sem Reykjavíkurborg lét gera fyrir sig í tilefni af stefnumótun fyrir íþróttafélög í Reykjavík til ársins 2030 og lögð var fyrir borgarráð þann 12. mars.

Skýrslan, sem Pawel Bartoszek veitti forstöðu, sýnir ansi dökka mynd þegar komið er í rekstrarúttekt hverfafélaga borgarinnar fyrir árin 2014-2018. Rekstrarniðurstaða aðalstjórna án afskrifta fastafjármuna, lækkar um 169,4 milljónir milli 2017 og 2018 og rekstrarafkoma flestra félaga versnar. Valur um tæpar 50 milljónir, að mestu vegna viðhalds, Fram um 60 milljónir vegna aukningar á styrkjum til deilda og Fjölnir um 33 milljónir.

Séu einstaka deildir teknar fyrir má sjá að flest ár eru deildir með nokkuð jákvæða útkomu. Knattspyrnudeildir borgarinnar voru með 117 milljón króna jákvæða niðurstöðu en Valsmenn hafa þar mikil áhrif. Hagnaður knattspyrnudeildar Vals var 132 milljónir króna árið 2018, sem skýrist að mikli leyti af styrk frá UEFA styrk upp á 173 milljónir. Ef Valur væri ekki talið með væri niðurstaða knattspyrnudeilda í heild neikvæð um 14,8 milljónir. „Þá sést einnig að rekstur körfuboltadeilda hefur greinilega þyngst allra síðustu ár,“ segir orðrétt í skýrslunni. Körfuknattleiksdeildir borgarinnar skiluðu 12,4 milljónum í mínus en handboltinn græðir á tá og fingri. Árið 2016 var sú tala 51 milljón, ári eftir um 20 milljónir og árið 2018 skiluðu handboltadeildir borgarinnar 37 milljónum í hagnað.

Svakalegur launakostnaður

Þegar skoðuð eru laun og verktakagreiðslur má sjá að Valur hefur spennt bogann ansi hátt árið 2018 og rauf félagið 350 milljón króna múrinn. Önnur félög komast varla með tærnar þar sem Valsmenn hafa hælana. KR og Fjölnir fara yfir 200 milljón króna markið en önnur lið hafa ekki roð við stórveldinu á Hlíðarenda.

Á þessum árum, 2014-2018, jukust laun og verktakagreiðslur um 51,4 prósent eða um hálfan milljarð. Heildarkostnaður launa- og verktakagreiðslna var um 1,6 milljarðar króna á árinu 2018.

Skuldastaða félaga er mjög mismunandi og jukust skuldir árið 2018. Heildarskuldir hafa aukist um 7,2 milljarða króna á tímabilinu 2014-2018. KR-ingar skulda um 200 milljónir en skuldastaða félagsins er áberandi verst. Fylkismenn hafa verið duglegastir að greiða niður skuldir og Fjölnir rauf 100 milljón króna markið árið 2018.

Í skýrslunni er einnig tekið fram að þegar skuldir félaga eru skoðaðar er ágætt að taka saman hvað er til af veltufjármunum til að mæta þeim. Veltufjármunir eru sjóðir, bankainnistæður, birgðir og aðrar skammtímakröfur. KR á yfir 150 milljónir í slíku fé en Valsmenn, ÍR-ingar, Framarar og Ármenningar eiga meiri veltufjármuni en skuldir. Pawel segir að þetta lýsi sums staðar stöðu til að staldra við. „Hvað skal segja – það má sjá að sum félög eru svolítið gíruð í sínum rekstri. Ef við horfum á ástandið núna þá eru hand- og körfubolti að missa úrslitakeppnirnar sem hafa verið stór tekjulind í þeirra rekstri og við erum að fara að sjá snúna stöðu og það mun þurfa að taka erfiðar ákvarðanir á næstunni. Það hefði jafnvel þurft óháð þessum aðstæðum sem nú eru uppi.“

Pawel Bartosek